Kópavogsbær myndi lamast

Kópavogur.
Kópavogur. Ómar Óskarsson

„Verkfallið myndi lama margar stofnanir bæjarins auk þess sem sundlaugarnar myndu loka. Leikskólar munu lamast, það sama gildir um grunnskólana,“ segir Jófríður Hanna Sigfúsdóttir, formaður starfsmannafélags Kópavogsbæjar en félagið hefur samþykkt verkfallsboðun. Náist ekki samningar leggja félagsmenn niður störf dagana 14., 15., 21. og 22. október. Þá hefst ótímabundið verkfall 1. nóvember.

„Stuðningsfulltrúar, húsverðir og fleiri í grunnskólum koma til með að fara í verkfall. Í leikskólunum eru það ófaglærðir starfsmenn, auk þeirra er sjá um eldamennsku og annað, sem fara í verkfall. Þetta gæti orðið mikið uppnám,“ segir hún. Jófríður bætir auk þess við að velferðarsvið Kópavogsbæjar muni einnig bíða hnekki.

„Við skrifuðum undir kjarasamning í byrjun júlí á skrifstofu Sambands íslenksra sveitarfélaga. Þar komu fulltrúar frá kjarasviði og fulltrúar frá starfsmannafélaginu að máli. Þegar búið var að undirrita samninga þá komu upplýsingar frá framkvæmdarstjóra kjarasviðs þess efnis að Kópavogsbær vildi háskólabókun út úr kjarasamingnum okkar. Ég lét rífa samninginn. Ég sel ekkert út úr samningnum, ég hef ekki heimild til þess,“ segir Jófríður.

Fundur hjá ríkissáttasemjara 1. október

„Þar með setti Kópavogsbær þetta mál í algjöra upplausn. Þessi háskólabókun er búin að vera inni í kjarasamningnum okkar frá því árið 2005. Þar að auki, þegar við fórum að ræða við félagsmenn um launamál og ýmislegt annað, þá kom í ljós að fólk er alveg kraumandi. Sérstaklega á leikskólunum. Fólk vill hærri laun,“ segir hún.

„Næsti fundur hjá ríkissáttasemjara er fyrsta október næstkomandi. Ég ætla rétt að vona að menn sjái að sér og við munum geta náð saman um nýjan kjarasamning. Ef slíkt næst ekki þá verður að þessu verkfalli. Það er búið að samþykkja það af 89,89% þeirra sem greiddu atkvæði,“ segir Jófríður að lokum.

Kópavogur.
Kópavogur. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert