„Af öllum mönnum á landinu þurfti Helgi Magnús að læka þetta, hann tekur afstöðu,“ sagði Ólafur Garðarsson, verjandi Gísla Freys Valdórssonar, aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem hefur verið leystur frá störfum tímabundið, í héraðsdómi í morgun.
Munnlegur málflutningur fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi í dag um frávísunarkröfu Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, í lekamálinu svokallað. Ólafur lagði fyrst og fremst áherslu á að málinu yrði vísað frá dómi.
Yrði dómari ekki við því, krafðist hann þess að Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og saksóknari í málinu yrði látinn víkja sæti þar sem hann hafi tjáð afstöðu sína í málinu þann með því að setja „læk“ við stöðuuppfærslu Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, líkt og mbl.is fjallaði um þann 20. september sl.
Í stöðuuppfærslunni lýsti Þórður skoðun sinni á samsæriskenningu á einum anga lekamálsins. Sagði Ólafur að Helgi Magnús væri vanhæfur til að sækja málið þar sem hann hefði tjáð sig um það á þennan hátt.
„Líklegast er að heimildamaður Jóns Bjarka sé vinstrimaður, ráðinn til innanríkisráðuneytisins í tíð vinstristjórnarinnar, og að viðkomandi vinstrimaður starfi sem moldvarpa í þágu vinstrimeirihlutans sem almenningur flæmdi frá völdum vorið 2013.“ Þetta er það sem Þórður Snær vísaði í stöðuuppfærslu sinni en þau eru komin úr bloggi Páls Vilhjálmssonar.
Þó Páll Vilhjálmsson sé beinskeyttur og hitti oft naglann á höfuðið, þá finnst mér þetta ólíkleg kenning, sagði Ólafur. Hann lagði við málflutninginn sinn í morgun mikla áherslu á að ákæruvaldið hefði mótað sér skoðun á málinu áður en ákæra var lögð fram í málinu, áður en rannsókn var lokið, að Gísli Freyr væri sekur.
Sagði Ólafur að í hans huga væri kristaltært að Helgi Magnús hefði tekið afstöðu með „læki“ sínu.
Dómari velti í kjölfarið fyrir sér hvað í því fælist að „læka“ á Facebook og benti á að hann notaði sjálfur ekki samskiptamiðilinn.
„Það er nú þannig með þetta „læk“, eftir orðanna hljóðan þýðir það að líka,“ sagði Helgi Magnús við aðalmeðferð málsins í morgun og bætti við að hann vissi sjálfur ekki hvaða merking fælist í því að „læka“ eitthvað á Facebook.
Benti Helgi Magnús á að þeir sem noti Facebook „læki“ einnig dánarfregnir og fregnir af því að maður sé um það bil að tapa baráttu sinni við krabbamein.
„Það sem skiptir mestu máli er að í þessu felst ekki þátttaka í neinni umræðu. Það liggur ekki ljóst fyrir að það liggi fyrir afstaða í þessu máli,“ sagði Helgi Magnús. „Ef maður hlær upphátt að einhverju svona, er það yfirlýsing um málið, þátttaka í umræðu?“ spurði hann.
„Það er algjörlega fráleitt og farsi að gera mál úr þessu,“ sagði Helgi Magnús einnig. „Hvað ef Mikki mús hefði sagt þetta og sækjandi hefði líkað það.“
Helgi Magnús sagði þetta aðeins brandara, hann yrði að læra að þessu og taka dómara til fyrirmyndar sem hafði áður greint frá því að hann notaði ekki samfélagsmiðilinn Facebook. Sagði hann einnig að ekki mætti æra óstöðugan, hann og aðrir þyrftu að átta sig á því að það sé ekki fallegt.
Helgi Magnús sagði að á þessum tíma, þegar hann lækaði stöðuuppfærsluna á Facebook, hefði ákærandi verið búinn að taka afstöðu til þess að ákæra málið og því ætti afstaða hans ekki að koma á óvart.
Sá Helgi Magnús ekki ástæðu til þess að hann ætti að víkja sæti í málinu á þeim forsendum að hann hefði „lækað“ stöðuuppfærsluna.
Frétt mbl.is: Saksóknari „lækar“ ummæli um lekamálið