Vill að saksóknari víki sæti í málinu

Gísli Freyr Valdórsson í héraðsdómi í morgun.
Gísli Freyr Valdórsson í héraðsdómi í morgun. mbl.is/Golli

Verjandi Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra sem hefur verið leystur frá störfum tímabundið, telur að Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og saksóknari í lekamálinu svokallaða, beri að víkja sæti í málinu.

Vísaði hann í það að Helgi Magnús hefði sett „læk“ við stöðuuppfærslu Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, líkt og kemur fram í þessari frétt mbl.is.

Í stöðuuppfærslunni lýsti Þórður Snær skoðun sinni á samsæriskenningu á einum anga lekamálsins. Sagði verjandi Gísla að Helgi Magnús væri vanhæfur til að sækja málið þar sem hann hefði tjáð sig um það á þennan hátt. 

Lagði verjandi Gísla Freys í fyrsta lagi áherslu á að málinu yrði vísað frá dómi.

Gísli Freyr er ákærður fyrir brot í starfi sínu gegn þagnarskyldu sem aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Í greinargerð Gísla Freys kemur fram að ákæra og rannsókn málsins hafi verið háð miklum annmörkum og því beri að vísa því frá.

Er frávísunarkrafan í fyrsta lagi reist á því að verknaðarlýsing í ákæru sé svo óskýr að málsvörn Gísla verði mjög erfið. Í öðru lagi hafi grunnregla sakamálaréttar um hlutlægni ákærenda ekki verið virt. Í þriðja lagi hafi lögregla ekki gætt meðalhófs við rannsókn málsins. Loks telur Gísli að jafnræðisreglan hafi verið brotin.

Frétt mbl.is: Saksóknari „lækar“ ummæli um lekamálið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert