Rúta með starfsmönnum Alcoa fór út af

Í Fagradal, milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða. Myndin er úr safni.
Í Fagradal, milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða. Myndin er úr safni. hag/mbl.is

Svo virðist sem veðrið sem nú gengur yfir landið sé einna verst á Austfjörðum, a.m.k. ef tekið er mið af útköllum björgunarsveita. Þrjár sveitir hafa verið kallaðar út á svæðinu í morgun, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Björgunarsveitin Hérað á Egilsstöðum ferjaði um 30 manns til Egilsstaða eftir að rúta með starfsfólki Alcoa fór út af í Fagradal. Engin meiðsl urðu á fólki en mikil hálka er á veginum um dalinn.

Björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði eystra fór á bát út á fjörðinn að sækja lok er fokið hafði af heitum potti. Vont var í sjóinn og var snúið við áður en lokið fannst.

Á Seyðisfirði fauk hluti af gafli húss í bænum. Björgunarsveitin Ísólfur var kölluð út og festi það sem eftir var af gaflinum og lokaði gatinu sem hafði myndast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert