„Þá er ég bara að þjófstarta hérna“

mbl.is/Ómar

Skondin uppákoma átti sér stað á Alþingi í dag þegar Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sté í ræðutól þingsins og hóf ræðu um lagafrumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherrra um visthönnun vöru sem notar orku.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, kynnti Þorstein til leiks en þegar hann varð þess áskynja um hvaða mál ræða þingmannsins fjallaði stökk hann á fætur, barði í bjölluna og reyndi að benda honum á að hann væri að ræða um rangt mál. Til umræðu væri allt annað mál. Gekk honum á köflum erfiðlega að komast að fyrir Þorsteini sem hélt um tíma ótrauður áfram máli sínu.

„Háttvirtur þingmaður! Háttvirtur þingmaður! Háttvirtur þingmaður!“ sagði Einar á meðan hans barði bjölluna og reyndi að komast að. „Við erum hér að taka afstöðu til beiðni um skýrslu um útflutning á orku um sæstreng.“

Þorsteinn svaraði undir hlátrasköllum þingmanna: „Afsakið. Þá er ég bara að þjófstarta hérna." 

Hér má hlusta á samskiptin

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert