Eldgosið á vef National Geographic

Jeppi við hraunið.
Jeppi við hraunið. mbl.is/Árni Sæberg

Áhugi erlendra ferðamanna og fjölmiðla á eldgosinu í Holuhrauni er mikill. Nýverið voru blaðamenn National Geographic á Íslandi þar sem þeir kynntu sér ástandið af eigin raun, flugu yfir eldstöðina, ræddu við vísindamenn og leiðsögumenn og fóru niður í Þríhnúkagíg.

Á vef National Geographic má sjá áhugavert myndskeið og umfjöllun, en fjallað er um vísindarannsóknir sem eru stundaðar og hvaða áhrif eldogsið hefur haft á ferðaþjónustu á Íslandi.

Greinin ber yfirskriftina: "Tourists Brave Iceland's Dangerous Volcano to See Eruption Firsthand", sem mætti útleggja á íslensku sem: „Ferðamenn hætta sér að háskalegu íslensku eldfjalli til að sjá eldgos með eigin augum“.

Þar segir m.a. að hraunið sem komi að meðaltali upp úr eldstöðinni á rúmlega fimm mínútna fresti sé svipað flatarmáli bandarísks ruðningsvallar (um það bil 1.700 fermetrar að stærð).

„Þrátt fyrir hættuna, þá hefur eldgosið mikið aðdráttarafl. Rúmlega 100 vísindamenn rannsaka Bárðarbungu í tengslum við Futurevolc-verkefni sem framkvæmdastjórn ESB styrkir, og sífellt fleiri ferðamenn heimsækja nú svæðið til að sjá eldgos með eigin augum,“ segir í greininni.

Aftur á móti er bent á að það geti verið flókið að skipuleggja slíka verð. T.d. sé ferðamönnum oft meinaður aðgangur eða færðir á brott vegna gasmengunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert