24 tilkynningar um tjón

Ljósmynd/Slysavarnarfélagið Landsbjörg

Í gærkvöldi og í nótt bárust lögreglunni á Selfossi 24 tilkynningar um tjón vegna ofsaveðursins sem gekk yfir. Björgunarsveitir hver á sínum stað sinntu útköllum. Flest tilvik áttu sér stað í Árborg og í Þorlákshöfn auk þess bárust tilkynningar úr Ölfusi og Hrunamannahreppi. Helst voru það þakplötur, klæðningar, pallar og tré sem fuku úr stað, segir í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Grænni Subaru Legacy PO 153 árgerð 1997 var stolið á tímabilinu frá klukkan 19 laugardag til klukkan 14 í gær. Bifreiðin var á bílastæði á bak við heimavist FSU á Eyravegi á Selfossi. Þeir sem hafa orðið varir við bifreiðina frá því á laugardag eða vita hvar hún er núna eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010.

Í hádeginu á miðvikudag urðu tvö alvarleg umferðarslys á á Suðurlandsvegi. Annað á Hellisheiði og hitt við Bitru í Flóa. Í báðum tilvikum misstu ökumenn stjórn á ökutækjum sínum í krapa og lentu framan á ökutækjum sem komu á móti. Tveir hlutu beinbrot og voru fluttir á slysadeild Landspítala til aðhlynningar.

Bifreið valt á gatnamótum Biskupstungnabrautar og Laugarvatnsvegar við Svínavatn á tólftatímanum í dag, mánudag. Ökumaður var einn í bifreiðinni og komst út úr henni af sjálfsdáðum. Lögregla og sjúkralið fór á staðinn. Talið er að ökumaðurinn hafi komist frá þessu án meiðsla.

Ekið var á ljósastaur í hringtorgi á mótum Þorlákshafnarvegar og Suðurstrandavegar síðastliðið föstudagskvöld. Þegar lögregla kom á vettvang var ökumaður ekki þar en var kominn í hús í Þorlákshöfn. Maðurinn reyndist ölvaður og var handtekinn og yfirheyrður þegar runnið var af honum. Hann kannaðist ekki við aksturinn og bar við minnisleysi.

Svo virðist sem margir bíleigendur séu með ábyrgðatryggingar ökutækja sinna í ólagi. Í vikunni voru sjö ökutæki tekin úr umferð vegna þess að þau voru ótryggð. Slíkt er mjög alvarlegt gagnvart öðrum vegfarendur sem gætu lent í þeirri stöðu að bæta sjálfir sitt tjón verði þeir fyrir því óláni að ótryggðu ökutæki verði ekið á ökutæki þeirra. Sekt við þessu broti er 30 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert