Krafa Ingimars verður tekin fyrir

Ingimar Karl Helgason.
Ingimar Karl Helgason. mbl.is/Dagur

Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem vísaði frá kröfu fjölmiðlamannsins Ingimars Karls Helgasonar í vændiskaupamálum sem eru til meðferðar fyrir dómstólnum. Héraðsdómi er því gert að taka fyrir kröfu Ingimars um að þinghöld verði opin í vændiskaupamálunum.

Áður hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að þinghöld í vændiskaupamálunum fjölmörgu verði lokuð. Ingimar Karl sætti sig ekki við það og krafðist þess að fá formlegan úrskurð um lokað þinghald í réttarhöldum yfir meintum vændiskaupendum. Setti hann fram kröfuna sem blaðamaður og ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs.

Í niðurstöðu héraðsdóms sagði: „Eins og fyrr greinir setur bréfritari kröfu þessa fram sem blaðamaður og ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs. Af þeim orðum má draga þá ályktun að hann telji að mál þetta sé þess eðlis að það eigi erindi við almenning í opinberri umfjöllun í nefndu vikublaði, og hafi hann af þeirri ástæðu áhuga á að fylgjast með rekstri þess. Að áliti dómsins, svo og með hliðsjón af ofangreindum dómum Hæstaréttar 18. júní 2010, getur slíkt þó ekki talist fullnægjandi til aðildar að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Er kröfunni því vísað frá dómi.“

Bar að leysa úr kröfunni

Ingimar Karl skaut málinu til Hæstaréttar sem felldi úrskurðinn úr gildi. Í dómi Hæstaréttar segir: „Í dómi Hæstaréttar 13. nóvember 2000 í máli nr. 407/2000, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 3697, var fallist á að fréttamenn geti átt aðild að kröfu samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Að virtum þeim dómi verður að telja að héraðsdómi hafi borið að leysa efnislega úr kröfu kæranda. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu hans til efnismeðferðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert