„Þvílík pólitísk gunga“

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Þvílík pólitísk gunga sem að háttvirtur þingmaður Jón Gunnarsson er sem að þorir ekki einu sinni... sem að þorir ekki einu sinni að skrifa tillögur sínar niður á blað. Það hefur enginn séð tillögu háttvirts þingmanns, hann hefur ekki þorað að skrifa hana niður á blað. Hvar er hana að finna? Hún er bara í hausnum á háttvirtum þingmanni. Ég vorkenni háttvirtum þingmanni að vera svona mikill pólitískur heigull að þora ekki að fara fram með eigið mál.“

Þetta sagði Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag í umræðum um fundarstjórn forseta þar sem stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu harðlega þá ákvörðun meirihluta atvinnuveganefndar þingsins, undir forystu Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að leggja fram munnlega breytingatillögu við rammaáætlun þar sem lagt er til að skoðaðir verði fjórir virkjanakostir sem samkvæmt áætluninni eru í bið. Á meðan barði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, bjölluna ótt og títt enda ræðutími Róberts liðinn.

Róbert sagði enga ástæðu til að gera lítið úr rétti þingmanna til að flytja mál á Alþingi en furðaði sig á því að Jón skyldi leggja til breytingar á rammaáætlun með þessum hætti í stað þess að leggja einfaldlega fram frumvarp til breytinga á lögum um rammaáætlun sem færi í þrjár umræður og fengi eðlilega þinglega meðferð. „Það er auðvitað ekkert annað en pólitískur heigulsháttur að gera þetta með þessum hætti.“ Sagðist Róbert vorkenna Jóni og heyrðist Jón þá svara úti í sal að engin þörf væri á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert