Veðurstofa Íslands hefur spáð ofsaveðri á landinu í nótt auk þess sem fimbulkuldi verður. Það er því ekki úr vegi að rifja upp hvaða merkingu lýsingin ofsaveður hefur á tungumáli veðurfræðimanna.
Ofsaveður er skilgreining á vindhraða. Í grein Trausta Jónssonar, veðurfræðings, frá árinu 2007 má sjá listann yfir orðin sem notuð eru til að lýsa vindhraða. Ofsaveður er það kallað þegar vindhraðinn nær 28,5-32,6 m/s. Við svo mikinn vindhraða eru áhrifin þau að miklar skemmdir verða á mannvirkjum og útivera á bersvæðum verður hættuleg. Vindurinn rýfur hjarn og lyftir möl og grjóti.
Til þess að finna svarið við því hvaðan orðið fimbulkuldi kemur, er hægt að leita í smiðju Vísindavefsins. Fimbul- er herðandi forliður og merkir ógnar- eða regin-.
Í svari Guðrúnar Kvaran á Vísindavefnum segir:
Forliðurinn kemur þegar fyrir í fornu máli í Eddukvæðum. Óðinn er til dæmis nefndur fimbultýr ‘hinn mikli guð’ í 60. erindi Völuspár, fimbulljóð kemur fyrir í 140. erindi Hávamála og fimbulþulur er nefndur í 142. erindi sama kvæðis, fimbulvetur kemur fyrir í 44. erindi Vafþrúðnismála og fimbulfambi í 103. erindi Hávamála.
Sjá veðurvef mbl.is
Sjá frétt mbl.is: Fimbulkuldi og ofsaveður