Fimbulkuldi og ofsaveður

Mikill kuldi er á landinu í dag. Ekki verða þó …
Mikill kuldi er á landinu í dag. Ekki verða þó kuldamet slegin að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. mbl.is/Golli

„Það fer að hvessa um mest allt land þegar líður að miðnætti. Það gæti þó farið að hvessa fyrr alveg syðst á landinu. Síðan verður alltaf hvassasta veðrið á Suður- og Suðausturlandi en skaplegra annars staðar,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Spáð er ofsaveðri í nótt á Suðurlandi með meðalvind í kringum 28 m/s. „Það er víða snjór á jörðu þannig að það getur myndast mikill skafrenningur. Það gæti líka snjóað svolítið í Faxaflóa, og þar af leiðandi kann að myndast mjög blint og leiðinlegt veður. Veðrið verður þó áberandi verst á Suður- og Suðausturlandi,“ segir Óli. 

Á morgun fer svo að draga úr vindi á suð-vesturhorninu en það verður áfram töluverður vindur á Suðurlandi og Suðausturlandi. Þá fer einnig að hvessa meira fyrir norðan. Lægðarkerfið fer svo áfram í austurátt á morgun en þá fer að draga úr vindi og á mánudaginn verður hvöss norð-austanátt með éljagangi og skafrenningi fyrir austan. 

Engin kuldamet slegin

Töluverður kuldi er á landinu í dag. Í Reykjavík er hitastigið -9 gráður en Óli á ekki von á að það verði mikið kaldara en það á höfuðborgarsvæðinu. Annars staðar á landinu getur kuldinn þó farið niður í kringum -20 stig. -15 stig eru nú í Mývatnssveit og í Grímsstöðum á Fjöllum. Nú er svo farið að létta til fyrir norðan og getur kuldinn hæglega farið kólnandi þar. Á ströndunum á Suðurlandi er hitastigið í kringum -4 stig en í innsveitum í kringum -11. 

Óli á þó ekki von á að kuldamet verði slegin í dag. „Það koma oftast nokkrir dagar á hverjum vetri með svona kulda. Þetta er ekkert óeðlilegt,“ segir Óli. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert