Áfram dregur úr skjálftavirkninni

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram, en verulega hefur dregið úr …
Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram, en verulega hefur dregið úr virkni þess undanfarnar vikur. Mjög hefur dregið úr sýnilegri virkni í gígunum og stækkun hraunsins er óveruleg. mbl.is/RAX

Síðan í gærmorgun hafa mælst á annan tug skjálfta í Bárðarbungu og voru þeir allir
minni en 2 að stærð að sögn Veðurstofunnar.  Í kvikuganginum voru um 15 jarðskjálftar og sá stærsti  um 1,5 stig.

Um 20 jarðskjálftar hafa verið við Herðubreið/Herðubreiðartögl  og allir undir 2 að stærð.

Ekki hefur sést til jarðeldsins í Holuhrauni á vefmyndavélum í nótt og morgun vegna snjómuggu á svæðinu.

Á fundi vísindamannaráðs almannavarna, sem fór fram sl. föstudag, kom fram að áfram dragi úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu þó hún teljist enn vera mikil.

Þá kom fram, að verulega hafi dregið úr sigi Bárðarbungu. Ekki sé þó allt sem sýnist því þykknun vegna ísskriðs inn í sigdældina valdi því að nánast ekkert sig mælist á GPS-stöðinni í miðju öskjunnar. Áætlað sig bergbotnins, að teknu tilliti til ísflæðis, sé hinsvegar nálægt 5 cm á dag. Kvikuflæði undan Bárðarbungu er nú talið vera 25-30 m3 á sekúndu, sem er um tíundi partur af því sem var í september síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert