„Senda skilaboð í könnunum

Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er ekki fáheyrt að litlir flokkar með fáa þingmenn eða sem eru í startholunum rjúki upp í skoðanakönnunum. Ég get nefnt dæmi um að kvennalistinn fóru sinni upp í 22% fylgi en fékk í næstu kosningum 4,9%  og var við það að ná ekki inn manni,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands um fylgisaukningu Pírata sem mælast nú stærsti flokkur landsins.

„Það er ákveðin stemning sem myndast í samfélaginu og ákveðið andrúmsloft, og fólk notar oft skoðanakannanir til þess að koma á framfæri skilaboðum en svo geta sumir komið til með að kjósa eitthvað allt annað í næstu kosningum.“

Evrópusambandsmálið mikil áhrif

„Annað dæmi sem ég gæti nefnt um framboð sem fór á mikið flug, er framboð Lilju Mósesdóttur, ég held að það hafi fengið 22% fylgi áður en það fór jafnt og þétt niður því Lilja bauð ekki fram og þau framboð sem tóku við keflinu fóru ekki á flug. Það er því ekki alltaf samansem-merki á milli þess að mælast hátt í skoðanakönnunum á miðju kjörtímabili og að ganga vel í kosningum. Nú eru til dæmis væntanlega ekki kosningar fyrr en eftir 2 ár, þótt það gæti orðið fyrr,“ segir Stefanía og bendir á að Evrópusambandsmálið geti hafa haft mikil áhrif á niðurstöðu könnunarinnar. 

„Núna er ákveðið ástand þar sem meðal annars bréf ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins fór misvel fyrir brjóstið á stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins, bæði þeim sem eru andvígir ESB, sumum þeirra finnst klaufalega að verki staðið, og svo Evrópusambandssinnuðum sjálfstæðismönnum sem hafa nú lýst því yfir að þeir muni bjóða fram. Ekki var spurt um fylgi við þá í kosningunum í könnuninni.“

Hinir „hefðbundnu flokkar“ virðast flestir tapa fylgi samkvæmt könnuninni, og á það bæði við um ríkisstjórnarflokka og aðra stjórnarandstöðuflokka. 

„Sjálfstæðisflokkurinn fer niður frá því sem hann hefur verið að mælast með. Á kjörtímabilinu hefur hann verið að mælast með á bilinu 25-29%. Píratar hafa verið áberandi undanfarið og gagnrýnt málalyktir í Evrópusambandsmálinu. Ég verð því allt að öllu hissa ef Píratar fá þessa niðurstöðu í kosningunum næst. Þetta eru hins vegar varnaðarorð fyrir þessa hefðbundnu flokka. Þeir eru að mælast mjög lágt, og það sama á við um Bjarta framtíð sem lengi vel var alltaf að mælast mjög hátt í könnunum, mun hærra en hann fékk svo í síðustu kosningum,“ segir Stefanía.

Formannsslagurinn í Samfylkingunni afleiðing fylgis í könnunum

Hún nefnir einnig formannsslaginn í Samfylkingunni sem afleiðingu dræms fylgis flokksins í könnunum. 

„Samfylkingin er ekkert að græða á Evrópusambandsmálinu og þessi skoðanakönnun kallar einnig á formannsslaginn sem er að fara af stað. Þeir hafa ekki náð að rétta úr kútnum eftir síðustu kosningar sem voru þó alveg skelfilegar fyrir flokkinn, þótt það verði einnig að líta til þess að Björt framtíð er einhvers konar klofningsframboð úr Samfylkingunni.“

Sjá frétt mbl.is: Vill ekki verða forsætisráðherra

Frá stofnfundi Pírata.
Frá stofnfundi Pírata. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert