Allir munu þykjast vera Píratar

Richard Falkvinge.
Richard Falkvinge. Ljósmynd/Helena Augustsson

„Þetta er svo dæmigert þegar um er að ræða fólk sem telur sig hreinlega eiga rétt á stuðningi. En allt í einu nýtur það hans ekki lengur. Og þá kemur það með slíkar fáránlegar yfirlýsingar,“ segir Richard Falkvinge, stofnandi sænska Pírataflokksins, í samtali við mbl.is þegar hann er spurður um viðbrögð hans við þeim ummælum Vilhjálms Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi fyrr í vikunni að íslenskir Píratar kenndu sig við skipulagða glæpastarfsemi.

Vilhjálmur lét ummælin falla í kjölfar skoðanakannana sem bent hafa til þess að Píratar nytu vaxandi stuðnings hér á landi og væru jafnvel orðinn stærsti flokkurinn hvað fylgi varðar. Falkvinge segir Pírata vissulega vilja breyta ákveðnum lögum en hann viti ekki til þess að það sé ólöglegt. Annars teldist Alþingi eins og það legði sig stunda glæpastarfsemi. Hann segir ummæli Vilhjálms þó ekki koma sér á óvart enda séu þau dæmigerð fyrir þá sem væru í afneitun gagnvart því að tímarnir væru að breytast.

Eina leiðin að ógna störfum þingmanna

„Ég spái því að það sem gerist næst verði að aðrir stjórnmálaflokkar munu keppast um að vera betri Píratar. Þetta sáum við gerast í Svíþjóð 2009 og í Þýskalandi 2011. Hvernig allir voru skyndilega Píratar og sögðust alltaf hafa verið það og hversu ánægðir þeir voru vegna þess að við, sem vorum að taka frá þeim störfin þeirra, værum að herma eftir stefnumálum þeirra enda hefðu þeir alltaf stutt afritun gagna. Þannig að allir munu skyndilega keppast um að vera betri við,“ segir Falkvinge. Þar væri kjarni málsins á ferðinni:

„Ef þú vilt breytingar er eina leiðin til þess að gera það með trúverðugum hætti að taka störfin af þingmönnum sem eru ekki að vinna vinnuna sína. Breytingar verða einungis þegar störfin þeirra eru í hættu. Tæknilegar framfarir eru mikilvægar en þegar allt kemur til alls mun allt landið dragast aftur úr ef lögin taka ekki breytingum í samræmi við hinn nýja veruleika og allt samfélagið mun bera skaða af því. Ef þingmenn gera sér ekki grein fyrir þeirri staðreynd að hlutirnir eru að breytast.“

„Það er einmitt þá sem breytingar verða“

Falkvinge segir Norðurlöndin standa sæmilega vel að vígi í þessu sambandi. En sé horft til að mynda til ríkja í sunnanverðri Evrópu og stofnana Evrópusambandsins komi annað á daginn. „Þar finnurðu fólk sem er enn að stimpla pappíra. Þingmenn í Brussel eru enn að láta ritarana sína skrifa tölvupóstana sína. Þeir eru að dragast svo hratt aftur úr að það er fáránlegt,“ segir hann. Eina leiðin, í ljósi reynslu hans sjálfs, til þess koma fram breytingum á reglum í samræmi við raunveruleikann sé að ógna störfum þingmanna.

„Það er nákvæmlega það sem er að gerast í þessu tilfelli. Þessi viðbrögð eru einmitt afleiðingar þess að þeir líta svo á að þetta sé að verða persónulegt. Störfum þeirra er ógnað, launaumslaginu þeirra. Það er einmitt við þær aðstæður sem breytingar fara að eiga sér stað. Við höfum séð þetta áður. Ef þú ert sáttur við hlutina eins og þeir eru og enginn ógnar því þá muntu bara halda þeim þannig. Það er einmitt ástæðan fyrir mikilvægi þess að ógna störfum þingmanna sem eru ekki að taka á málum í samræmi við þær breytingar sem eru að verða í heiminum í kringum þá.“

Tengdar fréttir:

Bendlaði Pírata við glæpastarfsemi

„Ákall um lýðræðisumbætur“

„Verðum að endurheimta lýðræðið“

„Senda skilaboð í könnunum“

Vill ekki verða forsætisráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert