„Verðum að endurheimta lýðræðið“

Rick Falkvinge, stofnandi sænska Pírataflokksins.
Rick Falkvinge, stofnandi sænska Pírataflokksins.

English version

„Þegar maður sér þessar tölur sýna að Pírataflokkurinn er stærsti flokkur landsins þá finnst mér það sýna að það eru engin takmörk fyrir vinsældum flokksins. Næsta kynslóð Pírata þarf ekki að sitja undir áreiti og það á einnig við um Pírata um allan heim,“ segir Falkvinge. 

Frá stofnun Pírataflokksins í Svíþjóð árið 2006 hefur flokkurinn verið stofnaður í fjölmörgum löndum og dreifist um heiminn með ógnarhraða. Samkvæmt samantekt Der Spiegel er Pírataflokk nú að finna í alls 70 löndum. 

„Það fer eftir því hvernig talið er, hvernig skilgreinir þú flokk? Telst það flokkur þegar tveir einstaklingar hittast og ákveða að stofna flokk, þegar þú ert kominn með vefsíðu eða þegar þú heldur fyrsta aðalfundinn?“ spyr Falkvinge.

Óútskýranlega hröð útbreiðsla

„Í dag er flokkurinn með kjörna fulltrúa í sex eða sjö löndum, annað hvort á sveitarstjórnarstigi, þjóðþingi eða Evrópuþingi.“

Þeirri staðreynd er Falkvinge stoltur af. „Að meðaltali tekur það ný framboð 28 ár að ná kjöri. Ég myndi því segja að við séum á góðu róli.“ Aðspurður út í hinn hraða vöxt flokksins á Ísland, segist Falkvinge ekki vera með nein svör á reiðum höndum. 

„Það er alltaf erfitt að sjá fyrir hvenær vindarnir eru okkur hagstæðir. Ég minnist þess að það hafi verið Rockefeller [John D. Rockefeller, innsk. blm.] sem sagði að til þess að ná velgengni þurfir þú þrjá hluti. Í fyrsta lagi þarftu að vakna snemma og sýna sjálfsaga. Í öðru lagi þarft þú að leggja mikið á þig og læra réttu tökin. Síðast en ekki síst þarftu að finna olíu. Metnaður og rétt vinnubrögð duga ekki ein og sér, þú þarft líka hagstæða vindátt.“

Óheppilegur tími til að toppa á

„Að því sögðu þá hefur stjórn flokksins á Íslandi staðið sig stórkostlega. Við sjáum það alls staðar þar sem við höfum risið upp gegn ríkisvaldinu og stöðnuðu samfélagi, að hlutirnir geta gerst hratt. Það gerðist í Svíþjóð og í Þýskalandi og það er það sem við erum að verða vitni að á Íslandi.“

Velgengni Pírata í skoðanakönnunum er þó síður en svo ávísun á velgengni í næstu þingkosningum sem fara fram eftir tvö ár. 

„Þessi fylgisaukning gat ekki komið á óheppilegri tímapunkti þar sem enn er langt í kosningar. Þýski Pírataflokkurinn mældist á tímabili með 13% í skoðanakönnunum tveimur árum fyrir kosningar en náði ekki manni inn.“

Falkvinge segir flokkinn nú staddann á afar sérstökum stað. „Aldrei áður höfum við verið með forsætisráðherratitilinn í sjónmáli, sem er mjög sérstök tilfinning. Á sama tíma er það algjörlega frábært að hreyfingin sé að vaxa eins og raun ber vitni.“

Allt annar handleggur

„Internetið færir okkur gagnsæi og opið samfélag. Þeir sem fæddust fyrir internetvæðinguna eiga erfitt með að aðlaga sig nýju tækninni ef þeir kynnast henni ekki frá fyrstu hendi. En að vinna úr hugmyndum okkar og smíða úr þeim staðfasta stjórnmálastefnu, það er allt annar handleggur. Það er mun erfiðara en að bara hanga á netinu. Það er í raun það sem við þurfum að læra býst ég við.“

Heldur þú að það myndi breyta flokknum ef hann kæmist í ríkisstjórn?

„Algjörlega! Það líður oft bara ein kynslóð áður en flokkur er orðinn spilltur. Um leið og þú hefur í höndunum völd, peninga og áhrif, þá lokkarðu til þín einstaklinga sem vilja völd, peninga og áhrif. Það tekur því um það bil 30 ár áður en pólitísku hugsjónarmönnunum hefur verið skipt út fyrir atvinnustjórnmálamenn.

Það útilokar þó ekki möguleikann sem þú hefur á að bæta eitthvað í samfélaginu hér og nú. Þegar allt kemur til alls þá er fólk bara fólk og hver einasta kynslóð verður að endurheimta lýðræðið.“ 

Mannkynið komið í túrbó-gírinn

„Eldri kynslóðin er alltaf í stöðugri baráttu gegn internetkynslóðinni. Það er þó ekki mjög sniðugt að vera í stöðugri deilu gegn öllum framtíðarkynslóðunum, sérstaklega þar sem tíminn vinnur ekki með eldri kynslóðinni.“

Falkvinge líkir stöðunni við hjónaband. 

„Þegar þú fylgist með hjónum þá sérðu að eftir dálitla stund fara þau að samnýta heilastarfsemina. Þau binda enda á setningar hvors annars og skiptast á að hugsa og taka ákvarðanir. Internetið hefur kveikt á einhverjum túrbó-takka sem við vissum ekki að mannkynið væri með.

Við erum að reyna að samnýta hugsanir og tilfinningar. Við byggjum samfélög með áður óþekktum hætti, sem enginn vissi að væri mögulegur.“

Sjá frétt mbl.is: Ertu ekki að grínast?

Sjá frétt mbl.is: Vill ekki verða forsætisráðherra

Sjá frétt mbl.is: Senda skilaboð í könnunum

Sjá frétt mbl.is: 38% ungs fólks myndi kjósa Pírata

Sjá frétt mbl.is: Ákall um lýðræðisumbætur

mbl.is/Ernir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert