Hlýnar með rigningu á laugardag

Páskarnir eru framundan og margir munu leggja land undir fót.
Páskarnir eru framundan og margir munu leggja land undir fót. Ómar Óskarsson

Áhugasamir skíðaiðkendur ættu að geta fundið brekkur til að bruna niður næstu daga en þegar nær dregur páskadegi hlýnar með rigningu. Næstu daga er aftur á móti kuldi í kortunum og verður bjartast sunnantil á landinu í dag og á morgun.

Á fimmtudaginn er von á lægð yfir landið sem mun þó væntanlega ekki valda miklum usla. Gera má ráð fyrir að það bæti í vind og frekar kalt verði á landinu en þó verður tiltölulega bjart víðast hvar.

Á föstudag er von á suðlægari átt með snjókomu en síðar slyddu og rigningu. Þennan dag mun hlýna en þó ekki almennilega fyrr en aðfaranótt laugardags og verður hlýjast og bjartast á Norðurlandinu.

Á laugardag má gera ráð fyrir að snjó taki upp í hlýindum. Ekki er mikill snjór á höfuðborgarsvæðinu og ættu hlauparar og aðrir því að taka gleði sína þegar stígarnir verða auðir á ný.

Annar í páskum tvísýnn

Á páskadag er von á suðvestanátt og kólnandi veðri með slyddu eða éljum vestantil á landinu og verður besta veðrið á Austurlandi.

Að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er annar í páskum tvísýnn og þarf að skoða hann betur þegar nær dregur. Gera má ráð fyrir að það hvessi og dagurinn verði frekar úrkomusamur.

„Seinni partinn kólnar nokkuð hratt og hvessir enn frekar. Fólk gæti þurft að hafa það í huga ef það ætlar að komast heim á annan í páskum, það gæti þurft að vera snemma á ferðinni,“ segir Óli Þór en bendir þó á að um langtímaspá sé að ræða.

Veðurvefur mbl.is

Landsmenn ættu að geta skellt sér á skíði í vikunni.
Landsmenn ættu að geta skellt sér á skíði í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka