Hafa rætt við eldri drenginn

Slökkvilið á vettvangi í Hafnarfirði.
Slökkvilið á vettvangi í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Búið er að taka skýrslu af öllum þeim sem urðu vitni af því þegar tveir bræður á grunnskólaaldri festust í fossi sem fellur af Reykdalsstíflu í Læknum í Hafnarfirði á þriðjudag. Þar á meðal hefur verið rætt við eldri drenginn og systur drengjanna. Þeim yngri er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er líðan hans óbreytt.  

Dreng­irn­ir eru 9 og 12 ára. Ell­efu ára syst­ir þeirra var með í för og hringdi hún í móður þeirra eft­ir hjálp þegar ljóst var dreng­irn­ir hefðu lent í foss­in­um. 

Að sögn lögreglu í Hafnarfirði má leiða líkur að því að drengirnir hafi verið að sækja bolta sem fannst í læknum, en rannsókn á tildrögum slyssins stendur þó enn yfir. Ekki liggur fyrir endanleg skýrsla tæknideildar lögreglu, sem sér um tækni- og vettvangsvinnu. 

Lögregla mun á næstu dögum ræða aftur við vitni, en verkið er tímafrekt og viðkvæmt þar sem meðal annars er um unga einstaklinga að ræða.

„Við erum að reyna að átta okkur á því hvað gerðist og hvað olli því að þeir fóru þarna ofan í,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is. „Þetta er ekki rekið eins og við séum með hefðbundið rannsóknarmál. Þetta er mjög viðkvæmt mál og við þurfum að horfa til þess og gefa okkur þann tíma sem þarf.“

Haf­ist var handa við að tæma lónið fyr­ir ofan stífl­una í gær vegna rann­sókn­ar máls­ins og var foss­inn stöðvaður. Lögð verður áhersla á að slys eins og þetta geti ekki end­ur­tekið sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert