„Stuttur vetur“ í Reykjavík

Íbúar höfuðborgarsvæðisins vöknuðu af værum sólarblundi nú í kvöld þegar slyddu, haglél og, í efri byggðum, snjókomu gerði um stund eftir annars sólríkan dag. „Það myndaðist smá bakki hérna á Suðurlandi í dag og dróst hérna yfir og minnti okkur á að vorið kemur ekki snemma á Íslandi,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Það léttir til aftur í nótt en það gæti fryst og myndast hálkublettir vegna bleytu. Svo verður léttskýjað og fínt veður á morgun eins og var í dag,“ segir hann. „Þetta er bara stuttur vetur núna,“ bætir Óli Þór við og hlær.

„Það eru þrjú eða fjögur ár síðan bændur fyrir norðan lentu í vandræðum því þeir þurftu að setja fé aftur á hús því það kom hret eftir 20. maí. Þetta er alvanalegt,“ segir hann, og við það rifjast upp fyrir blaðamanni einn dagur í prófalestri í byrjun maí árið 2011 þegar snjó kyngdi niður í Reykjavík. 

„1986 var ég á leiðinni til Hollands frá Keflavíkurflugvelli 16. maí, þá var slydduhraglandi, þannig að þetta er ekkert óeðlilegt,“ segir hann. „Fólk er bara orðið langþreytt á þessu veðri. Veturinn var erfiður og sumarið hérna á Suðvesturhorninu leiðinlegt.“ Hann sagði mjög sjaldgæft að hiti á Íslandi færi marga daga yfir 20 gráður, sérstaklega marga daga í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert