Saka þingmann um kvenfyrirlitningu

Heitar umræður voru á þingi í dag.
Heitar umræður voru á þingi í dag. mbl.is/Ómar

Nokkur hiti var í þingmönnum í dag en eitt helsta umræðuefnið var rammaáætlun og breytingartillögur meirihlutans á Alþingi um fjóra nýja virkjanakosti í nýtingarflokk. Krefst minnihlutinn þess að málið verði tekið af dagskrá þingsins.

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði meðal annars ummæli Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, frá því í gær að umræðuefni sínu.

„Ég er einn af þeim sem var mjög hissa á því að þetta mál skyldi vera aftur á dagskrá í dag. Eftir umræðuna sem var í gærkvöldi, nýjar upplýsingar sem komu þar inn eftir fréttir gærkvöldsins og útspil hæstvirts umhverfisráðherra. Umhverfisráðherra sem varð svo að sæta því af formanni, háttvirtum þingmanni Jóni Gunnarssyni, í atvinnuveganefnd að kalla síðan ráðherrann þessari kvenfyrirlitlegu athugasemd „einhver ráðherra.“ Við erum að tala um ráðherra málaflokksins. [...] Getur maður lagst lægra í athugasemdum inni í þessu þingi, öðruvísi en að verða áminntur?“

Stæk fyrirlitning

Skömmu síðar mætti Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól Alþingis. Vék hann einnig að ummælum Jóns frá því í gær.

Sagði Árni Páll ummælin réttilega lýsa kvenfyrirlitningu í garð ráðherrans og „stækri fyrirlitningu“ í garð samstarfsflokksins.

Ósmekklegt og ekki samboðið þingmönnum

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bað einnig um orðið í þeim umræðum sem fram fóru á þingi.

„Ég sagði hér í ræðu minni í gær að þó að menn kysu að vera með persónulegt skítkast í minn garð, háttvirtir þingmenn, þá tæki ég það ekkert nærri mér. Mér væri það að meinalausu. En það er kannski ekki alveg svo þegar háttvirtur þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, kemur hér upp og sakar mig um að hafa verið með kvenfyrirlitningu í þessu máli. Þá finnst mér of langt gengið. [...] Þetta er kannski í samræmi við hin nýju stjórnmál sem að þessir flokkar bjóða. Þessi málflutningur sem að hér er ástundaður í þessu máli. Það er auðvitað hægt að ganga of langt og ég ber af mér allar slíkar ásakanir um að ég hafi sýnt hér einhverja kvenfyrirlitningu og mér finnst þetta ósmekklegt og þingmönnunum ekki samboðið.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert