Vilja fíflagang á Alþingi

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Stjórnarandstaðan á Alþingi krefst þess að tekin verði af dagskrá þingsins rammaáætlun og breytingartillögur meirihlutans um nýja virkjanakosti í nýtingarflokk. Hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar verið iðnir við að taka til máls í dag.

Meðal þess sem þingmenn stjórnarandstöðunnar á Alþingi segja um málið er að það sé ekki þingtækt og standist ekki lög. Fyrst hófust umræður um fundarstjórn forseta og störf þingsins, þar sem þingmenn minnihlutans nýttu meðal annars tækifærið til þess að fjalla um þetta mál og þá stöðu sem uppi er á íslenskum vinnumarkaði.  

Einn þeirra þingmanna sem tók til máls í dag var Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.

„Þetta mál er auðvitað ekki til þess fallið að auka traust á þinginu því eins og hér hefur komið fram þá er lagalegur grunnur þessarar breytingartillögu veikur. Umræðan hér í gær hefur líka afhjúpað þá staðreynd að meirihluti atvinnuveganefndar hefur ekki getað svarað þeirri gagnrýni sem hér hefur verið færð fram.“

Tillagan er smjörklípa

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, kallaði tillöguna „smjörklípu“ er hann ávarpaði þingheim.

„Formenn stjórnarflokkanna, doktor Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, eru með allt á hælunum. Í tveimur stærstu málum samtímans - kjaradeilunum annars vegar og slagnum við kröfuhafana hins vegar. Og til að beina ljósinu frá þeirri neyðarlegu staðreynd þá vilja þeir hafa allt í fíflagangi hér í þinginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert