Fjölmargir leita til Stígamóta

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölmargir hafa leitað til Stígamóta síðustu daga í kjölfar umræðu um kynferðisbrot á Facebook sem rekur rætur sínar til Facebook hópsins Beauty tips. Yfir helgina hefur umræðan í vaxandi mæli færst úr lokuðum hópum yfir í hið almenna rými þar sem notendur hafa breytt prófílmyndum sínum í ýmist gula eða appelsínugula broskalla með talblöðrur fyrir munn sem tákna að viðkomandi þekki eða sé sjálfur fórnarlamb kynferðisofbeldis.

„Það er búin að vera mikil ásókn í viðtöl og margir hafa verið í sambandi við okkur í gegnum netið. Þetta hefur greinilega komið við marga,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, Segir hún að starfsfólk Stígamóta verði yfirleitt vart við meiri aðsókn þegar umræða um kynferðisbrot fer hátt í samfélaginu enda hvetji hún marga til að leita sér hjálpar.

Guðrún segir að þeir sem leiti til Stígamóta nú séu bæði fólk sem hefur aldrei  fyrr hefur leitað sér hjálpar sem og aðrir sem komið hafa áður.

„Mér finnst umræðan tákn um að það hafi orðið mikil valdefling í þjóðfélaginu, fyrst og fremst meðal ungra kvenna og vonandi meðal karla líka, að fólk skoði þetta í víðara samhengi, horfi í eigin barm og sætti sig ekki lengur við að það megi ekki ræða þessi mannréttindabrot. Ég ætla rétt að vona að þessi þróun haldi áfram en það þarf auðvitað að bregðast við þessu.“

Ekki hægt að krefja konur um kærur

Guðrún segir ánægjulegt að lokinu hafi verið lyft af og að fólk segi frá enda sé ljóst að hinar formlegu leiðir sem samfélagið bjóði upp á fyrir þolendur kynferðisbrota séu ekki að virka. „Réttarkerfið nær ekki yfir kynferðisofbeldið og það er ekki viðunandi að segja konum að þær eigi bara að kæra. Þá kröfu er ekki hægt að gera gagnvart konum nema réttarkerfið sé í standi til að taka við kærunum.“

Guðrún segir að í dag sé staðan þannig að fórnarlömb séu ólíkleg til að kæra og að þegar kærur séu lagðar fram á annað borð séu þær oftast felldar niður. „Það er ekki bara það heldur hafa konur fengið einhverskonar munnkörfu. Ef þær segja frá því að þeim hafi verið nauðgað og nafngreina nauðgarana er hætta á að þær fái það í hausinn þannig að það sé hægt að fara í meiðyrðamál við þær.“

Margar stúlkur hafa nafngreint menn í frásögnum sínum á Beauty tips og hafa sumar þeirra fengið símtöl í kjölfarið þar sem þeim var hótað málsókn. „Þá eru þær komnar í þá fáránlegu stöðu að þurfa að sanna að einhver hafi beitt þær ofbeldi þó svo að lögreglan hafi ekki getað sannað það,“ segir hún og bendir á að ein af grunnstoðum réttarkerfisins sé sú hugmynd að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð. „Ef að við trúum því þá þýðir það að allar konur sem segja frá kynferðisofbeldi ódæmdra manna eru sjálfkrafa véfengdar, og það er svo absúrd.“

Ekkert kynferðisbrot án geranda

Guðrún segir að vitundarvakningin nú eigi að vera skilaboð til yfirvalda um að þörf sé að betri aðbúnaði þegar kemur að kynferðisbrotamálum,  að rannsóknir þurfi að verða vandaðari, að auka þurfi verulega þekkingu og þjálfun þeirra sem að málunum koma og að taka þurfi umfang vandamálsins alvarlega.

Guðrún tekur undir með þeim sem sagt hafa að mikilvægt sé að beina kastljósinu að gerendum, t.a.m. með aukinni forvarnarfræðslu.

„Það á sér ekkert kynferðisbrot stað án kynferðisbrotamanns. Það eru þeir sem ákveða og framkvæma lögbrotin og þess vegna þarf að sjálfsögðu að beina sjónunum að þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert