„Nýskriðnir úr fjárhagslegum torfkofum“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Rósa Braga

„Ég fagna eins og aðrir fram komnum hugmyndum um losun fjármagnshafta og ég verð að segja eins og er að ég hlakka til að vinna með öllum hér á þingi að þessu máli, vegna þess að það hefur verið svo mikið af deilum upp á síðkastið að mann er farið að þyrsta í eitthvað sem við getum öll verið sammála um að sé jákvætt markmið. Sömuleiðis líta hugmyndirnar vel út, alla vega í fljótu bragði og með þeim fyrirvara að við eigum eftir að ræða þetta allt saman.“

Þetta sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokksformaður Pírata, á Alþingi í dag um áform ríkisstjórnarinnar um afnám fjármagnshaftanna. Hins vegar sagðist Helgi hafa ákveðnar áhyggjur af íslensku samfélagi og íslenskum efnahag. Hann óttaðist að framundan færi aftur tími ákveðins skorts á ráðdeild eftir að losað hafi verið um höftin.

„Ég vil meina að Íslendingar séu eiginlega nýskriðnir úr fjárhagslegum torfkofum, að við sem þjóð þekkjum fjármál mjög illa. Ekki bara þingmenn heldur líka bankamenn og líka almenningur. Og það finnst mér vera mjög alvarlegt vandamál. Í raun og veru er alvarlegasta efnahagsvandamál þjóðarinnar það hvernig Íslendingar, þingmenn, bankamenn og allir í samfélaginu líta á peninga og fjármagnskerfið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert