Dróni gegn hvalveiðimönnum

Meðlimir Hard to Port kveiktu á reykblysum í Hvalfirði í …
Meðlimir Hard to Port kveiktu á reykblysum í Hvalfirði í gærkvöldi til að mótmæla hvalveiðum. Boris Niehaus

Náttúruverndarsinnar ætla meðal annars að nota dróna til að fylgjast með íslenskum hvalveiðimönnum og vekja athygli heimsbyggðarinnar á því sem þeir telja illa meðferð á dýrum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum Hard to Port sem stóðu fyrir mótmælum í Hvalfirði í gærkvöldi.

Samtökin hrintu af stað herferðinni „Fylgst með hvalveiðimönnum“ en liðsmenn þeirra kveiktu meðal annars á rauðleitum reykblysum þegar skip Hvals hf. komu með fyrstu langreyðar sumarsins til verkunar í Hvalstöðinni í Hvalfirði í gærkvöldi.

„Aðalleikendurnir í íslenska hvalveiðiiðnaðinum vilja innilega láta lítið fyrir sér fara. Þeir vita hvað þeir eru að fela og að þeir vita að ef fólk kemst að því verður hneykslan almennings mikil. Það er sorglegt og óþolandi hvað verður um íslenskt sjávarlíf þannig að við ákváðum að storka hvalveiðimönnunum og færa þeim það sem þeir óttast helst: athygli og umfjöllun,“ segir í tilkynningu Hard to Port.

Þá kemur fram að samtökin hyggist nota dróna til að varpa ljósi á lítt sýnilegar hvalveiðar Íslendinga og að fræða almenning og áframhaldandi slátrun á íslensku dýralífi sem sé í útrýmingarhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert