Hefðu aldrei átt að slátra selnum

Selkópur slapp í vikunni út úr Húsdýragarðinum og ráfaði þaðan …
Selkópur slapp í vikunni út úr Húsdýragarðinum og ráfaði þaðan um tvo kílómetra inn á tjaldsvæði í Laugardal. Síðar var honum slátrað. mbl.is/Eggert

Auðveldlega hefði verið hægt að sleppa selkópnum, sem slátrað var fyrr í vikunni, út í náttúruna honum að meinalausu. Þetta segir dr. Susan C. Wilson, forstöðumaður Selarannsóknarstofnunarinnar Tara á Norður-Írlandi, í samtali við mbl.is.

Hún undrast aðferðir Húsdýragarðsins og segist aldrei hafa vitað til þess að selkópum í haldi væri slátrað, fyrr en nú. „Ég hef aldrei heyrt um slíkar aðfarir neins staðar fyrr en ég fékk þessar fréttir frá Reykjavík,“ segir Wilson.

„Að mínu mati sýnir þetta fullkomið virðingarleysi gagnvart dýrunum sem eru í umsjá garðsins. Hér er ekki um að ræða einföld húsdýr sem eru ræktuð fyrir fæðu heldur eru þetta villt dýr, sem eru í haldi vegna þess að þeim er ætlað að fræða almenning um hegðun þeirra og sögu.“

Wilson gagnrýnir aðferðir Húsdýragarðsins.
Wilson gagnrýnir aðferðir Húsdýragarðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Á sér engan stað í starfi dýragarða“

Wilson bætir við að slátrun selsins gefi slæm skilaboð til almennings. 

„Að slátra þessum kóp er til marks um algjöran skort á umhyggju og samkennd með lífum þessara dýra sem garðurinn hefur ákveðið að ábyrgjast. Að drepa selkóp og nota hann sem fæðu fyrir heimskautarefi, sem einnig eru í haldi, á sér engan stað í starfi dýragarða, sem snýst um að vekja athygli almennings á dýralífi og veita fræðslu um viðkomandi dýr.“

Wilson bendir að lokum á að dýragarðurinn hefði í þessum efnum getað farið mun betri leið.

„Á hinn bóginn, hefðu yfirvöld garðsins ákveðið að útskýra fyrir almenningi líf selkópa eftir að þeim er sleppt til að lifa náttúrulegu lífi sínu, þá hefði það verið frábært. Einnig hefði dýragarðurinn getað valið að fylgjast með staðsetningu selsins með hjálp gervihnattar, en slíkt væri mjög áhugavert fyrir skólabörn sem heimsækja garðinn, sem fá þannig að kynnast heimi þessara dýra. Allt hefði þetta getað hjálpað til við að færa viðhorf Húsdýragarðsins til 21. aldarinnar.“

Kópurinn sem slátrað var í vikunni hefði getað lifað góðu …
Kópurinn sem slátrað var í vikunni hefði getað lifað góðu lífi, að sögn Wilson. mbl.is/Ómar

Kostar ekki neitt að sleppa selkópum

Hún segir það vera meinalaust fyrir selkópa, sem hafa varið allri sinni stuttu ævi í haldi dýragarðs, að vera sleppt út í náttúruna.

„Best væri ef líffræðingur væri með í för til að geta ráðlagt hvar hentugasta selalátrið væri að finna, sem hefði þá aðra kópa til samneytis. Ef það eru fleiri en einn kópur þá væri best að sleppa þeim samstundis í sama selalátur,“ segir hún og bætir við að besti tíminn til þessa væri í byrjun og miðjum ágúst, að minnsta kosti í Stóra-Bretlandi.

Lítill sem enginn kostnaður er við að sleppa selkóp út í sitt náttúrulega umhverfi.

„Það kostar nákvæmlega ekki neitt, fyrir utan bensínkostnaðinn sem fellur til við að ná til selalátursins og kostnaðinn við búr eða net til að halda utan um kópinn á leið út í vatnið,“ segir Wilson og bendir á sögur sem stofnun hennar hefur birt á síðu sinni, sem fjalla um seli sem sleppt hefur verið úr haldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert