Oft ósammála, en sammála í dag

Samstaða ríkti meðal ungliðahreyfinganna.
Samstaða ríkti meðal ungliðahreyfinganna. mbl.is/Ev Björk

Við erum í skýjunum með hvað þetta var gaman og hversu vel þetta gekk,“ segir Óskar Steinn Ómarsson, upplýsingafulltrúi Ungra jafnaðarmanna, en allar ungliðahreyfingar íslenskra stjórnmálaflokka sameinuðust í gleðigöngu dagsins í Reykjavík. „Við vorum þarna sem ein heild og lögðum áherslu á að vera með skilaboð frekar en of miklar auglýsingar og lógó. Þetta var allt í miklum vinskap og voða skemmtilegt,“ segir Óskar.

Hann kveðst vona að samstarf af svipuðu tagi náist á næsta ári og framtakið verði árlegur viðburður. „Ég vona einnig að við finnum fleiri mál þar sem við getum fundið svona sameiginlega fleti og verið sammála.“

Ungir jafnaðarmenn lögðu áherslu á ást, jafnrétti og fræðslu.
Ungir jafnaðarmenn lögðu áherslu á ást, jafnrétti og fræðslu. Ljósmynd/Óskar Steinn

Sjálfstæðisfálki í regnbogalitum

Rafn Steingrímsson frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna tekur undir orð Óskars. „Það sem er ótrúlega merkilegt við þetta framtak að okkar mati er að í pólitíkinni á Íslandi er fullkominn samhugur um að réttindi hinsegin fólks séu sjálfsögð mannréttindi,“ segir Rafn. Hann bendir á að ekki þurfi að leita lengra en til nágrannalanda okkar þar sem hinsegin fólk njóti vissulega sæmilegra réttinda, en málaflokkurinn sé samt stöðugt pólitískt þrætuefni.

Ungir Sjálfstæðismenn báru regnbogafálka á bolnum.
Ungir Sjálfstæðismenn báru regnbogafálka á bolnum. mbl.is/Þórður

„Það er svo gaman að þetta sé ekki þannig á Íslandi, heldur bara sjálfsagt þvert á flokka.“ Rafn áætlar að um 60-70 manns hafi tekið þátt í göngunni fyrir hönd ungliðahreyfinganna. SUS-liðar skörtuðu bolum með Sjálfstæðisfálka í regnbogalitum auk þess að bera skilti með skilaboðum á borð við „hægri og hinsegin“. Rafn segir merki flokksins henta vel við tilefnið, enda auðvelt að skipta um liti í fálkanum. „Hann er frá níunda áratugnum og er orðinn svolítið 80's. Það er gaman að lífga hann aðeins við.“

SUS-arar fjölmenntu í bæinn.
SUS-arar fjölmenntu í bæinn. Ljósmynd/Steinunn Lilja

Sammála um grunnmannréttindi

„Þetta var alveg brjálæðislega skemmtilegt,“ segir Páll Marís, hjá Sambandi ungra framsóknarmanna. Þetta er í fyrsta skipti sem ungliðahreyfingarnar koma saman og setja upp „show“ sem ein heild. Það var gríðarlega gaman að sjá að þó við séum með mismunandi skoðanir á ýmsum málefnum getum við verið sammála um grunnmannréttindi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka