Heilsugæslan fari offari

Gunnar Ingi Gunnarsson yfirlæknir skoðar einn skjólstæðing sinn. Myndin er …
Gunnar Ingi Gunnarsson yfirlæknir skoðar einn skjólstæðing sinn. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lögmenn sem Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á heilsugæslustöð Árbæjar, hefur ráðfært sig við segja að heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) fari offari með bréfi sem hún sendi honum eftir að hann hvatti starfsfólk sitt til að styðja verkfall ritara sem er í SFR. Í bréfinu var Gunnari Inga hótað uppsögn. Forstjóri heilsugæslunnar segir henni bera skyldu til að tryggja eins mikla þjónustu og unnt er.

Forsaga málsins er sú að þegar verkfall SFR hófst á fimmtudag lágu fyrir tvenns konar fyrirmæli fyrir móttökuritara á heilsugæslustöðinni í Árbæ sem mátti vinna í verkfallinu, að sögn Gunnars Inga. Önnur voru frá stéttarfélaginu en hin frá HH. Töluverður munur var á fyrirmælunum en sá helsti var að HH taldi að taka mætti á móti fólki sem hefði skráð tíma áður en verkfall SFR skall á en stéttarfélagið sagði að ritarinn ætti aðeins að taka á móti fólki í neyðartilfellum.

Gunnar Ingi segir að í ljósi þessa augljósa ágreinings hafi hann lagt það í hendur ritarans að ákveða hvorum tilmælunum hann færi eftir. Ritarinn ákvað að hlíta tilmælum stéttarfélags síns. Áður hafði Gunnar Ingi ritað starfsmönnum stöðvarinnar bréf þar sem hann hvatti þá til að virða verkfallsréttinn líkt og þegar læknar og hjúkrunarfræðingar voru í verkfalli.

Aðgerðir langt umfram tilefnið

Í kjölfarið barst yfirlækninum fjögurra blaðsíðna bréf frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem gerð var athugasemd við að hann fylgdi ekki fyrirmælum hennar. Var honum gefinn frestur fram til morgundagsins til að skila inn andmælum. Eftir að þau berist muni heilsugæslan taka afstöðu til þess hvort að hann verði áminntur skriflega, hann rekinn úr starfi með uppsagnarfresti eða rekinn úr starfi án uppsagnarfrests.

„Þetta er dálítið mögnuð staða eftir 37 ár í farsælu starfi að fá svona sendingu,“ segir Gunnar Ingi sem fer nú yfir bréfið með lögmanni.

Lögmenn segi honum að með bréfinu sé farið offari og meðalhóf virt að vettugi. Þær aðgerðir sem boðaðar séu gegn honum séu langt umfram tilefnið.

Stílbrot við framkvæmd verkfalla lækna og hjúkrunarfræðinga

Gunnar Ingi bendir á að í verkfalli lækna og hjúkrunarfræðinga hafi verið samþykkt að sinna aðeins bráðatilfellum, eins og SFR vilji að nú sé gert í fjarveru móttökuritara. Ef taka hefði átt á móti þeim sem höfðu áður bókað tíma þá hefðu aðrir starfsmenn heilsugæslunnar gengið í störf móttökuritara í verkfalli, að hans mati.

„Tilmælin komu mér dálítið á óvart vegna þess að þau voru á skjön við framkvæmd verkfalla þegar læknar og hjúkrunarfræðingar voru í kjarabaráttu. Mér finnst þetta brot á jafnræðisreglu. Þá var bara tekið á móti neyðartilvikum og stjórnsýslan samþykkti það þannig að þetta er stílbrot miðað við framkvæmdina þá,“ segir Gunnar Ingi.

Leiðbeiningarnar frá ráðuneytinu

Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, staðfestir að hún hafi sent bréf vegna framkvæmdar verkfallsins til eins yfirlæknis á heilsugæslustöð. Að öðru leyti segist hún ekki geta tjáð sig um mál einstakra starfsmanna.

Heilsugæslan hafi gefið út leiðbeiningar til starfsmanna sinna um framkvæmd verkfallsins. Þær byggist á leiðbeiningum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi út til ríkisstofnana vegna verkfalla almennt. Svanhvít segir að sér sé ekki kunnugt um að gengið hafi verið í störf neinna hjá heilsugæslunni í verkfallinu. Veruleg skerðing hafi orðið á þjónustu heilsugæslunnar.

Þannig lá öll símaþjónusta niðri hjá heilsugæslustöðvunum, ekki var hægt að endurnýja lyf í gegnum síma og síðdegismóttökur féllu niður vegna verkfallsins. Hins vegar telur heilsugæslan að hægt sé að taka á móti fólki sem hafði bókað tíma áður en verkfallið hófst.

Sami rammi og um lækna- og hjúkrunarfræðingaverkfall

Undanþága sé fyrir einum móttökuritara á hverri stöð og honum beri að sinna reglubundnum störfum eins og skýrt komi fram í leiðbeiningum frá ráðuneytinu, þar á meðal að taka við þeim sem áttu bókaðan tíma. Hið sama hafi verið uppi á teningnum í verkfalli lækna og hjúkrunarfræðinga. Þeir sem voru á undanþágu þá hafi sinnt sínum störfum í samræmi við starfslýsingu. Augljóslega hafi hins vegar ekki allir getað mætt í bókaða tíma vegna þess að þá voru aðeins einn læknir og hjúkrunarfræðingur á vakt, ólíkt nú.

„Það er sami ramminn utan um þetta. Sá starfsmaður sem er á undanþágu vinnur í samræmi við sína starfslýsingu eins og hann kemst yfir, að sjálfsögðu. Hann getur ekki unnið á við tvo, þrjá eða jafnvel fleiri starfsmenn,“ segir Svanhvít.

Hvað varði móttökuritarana þá eigi það sama við og í öðrum verkföllum, þjónustan sem heilsugæslan gat veitt hafi dregist verulega saman.

„Það er á okkar ábyrgð hér að tryggja eins mikla þjónustu og unnt er við þessar erfiðu aðstæður. Heilsugæslan er ein af grunnstoðum heilbrigðisþjónustunnar og það er skylda okkar að tryggja ákveðna lágmarksþjónustu,“ segir Svanhvít.

Þjónusta á heilsugæslum skerðist á meðan starfsmenn SFR eru í …
Þjónusta á heilsugæslum skerðist á meðan starfsmenn SFR eru í verkfalli.
Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka