Málatilbúnaðurinn beinlínis skaðlegur

Landspítali hefur undanfarin ár tilkynnt að jafnaði á milli 6 …
Landspítali hefur undanfarin ár tilkynnt að jafnaði á milli 6 og 10 alvarleg atvik árlega til Landlæknis og nokkur þeirra til lögreglu. mbl.is/Ómar

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að það hafi verið afar þungbært að að sjá samstarfskonu dregna fyrir dóm í vikunni, ákærða fyrir manndráp af gáleysi vegna alvarlegs atviks sem varð á gjörgæsludeild spítalans fyrir rúmum þremur árum. Hann segir að málatilbúnað ákæruvaldsins gagnvart einstaklingi sé beinlínis skaðlegur.

Páll segir í pistli, sem birtur er á heimasíðu spítalans, að Landspítali hafi undanfarin ár tilkynnt að jafnaði á milli 6 og 10 alvarleg atvik árlega til Landlæknis og nokkur þeirra til lögreglu enda beri spítalanum skylda til þess lögum samkvæmt.

Það sé nauðsynlegt að til sé farvegur til að rannsaka alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu bæði innan stofnunar og ekki síður hjá óháðum ytri aðilum og gríðarlegir hagsmunir felist í því að slík ferli leiði til umbóta og hvetji til opinnar öryggismenningar. Þetta ætti að vera augljóst enda hafi þessi háttur verið hafður á í rannsóknum samgönguslysa.

„Því hefur verið afar þungbært að að sjá samstarfskonu okkar dregna fyrir dóm í vikunni, ákærða fyrir manndráp af gáleysi vegna alvarlegs atviks sem varð á gjörgæsludeild spítalans fyrir rúmum þremur árum. Spítalinn sjálfur er vissulega fyrir dómi vegna málsins en þessi málatilbúnaður ákæruvaldsins gagnvart einstaklingi, þegar ljóst er að ekki er um ásetningsbrot að ræða, er beinlínis skaðlegur enda skapar hann óvissu um störf og starfsumhverfi íslenskra heilbrigðisstarfsmanna,“ segir Páll.

Hann segir ennfremur, að það sé þó stórt skref í rétta átt að undir forystu velferðarráðuneytisins hafi nýlega verið  gefin út skýrsla starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu.

Skýrsluhöfundar hafi mótað tillögur um verklag í tengslum við tilkynningar og rannsókn óvæntra dauðsfalla og í framhaldinu hafi ráðherra lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að koma tillögunum áfram í farveg sem leiði til þeirra úrbóta sem að sé stefnt í þágu öryggis sjúklinga og betra starfsumhverfis heilbrigðisstarfsfólks.

„Þetta er afar brýnt og það er mikilvægt að við kvikum ekki frá því að halda áfram innleiðingu öryggismenningar og stöðugum umbótum á starfseminni með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Það er sú leið sem sjúklingar okkar vænta að við förum og sem þróuð heilbrigðiskerfi hafa valið. Það er okkar leið.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert