Tjónið líklega yfir 100 milljónir

Landsnet vonast til að viðgerð ljúki á næstu tveimur sólarhringnum á byggðalínuhringnum sem laskaðist í óveðrinu í gærkvöldi og nótt samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Ljóst sé hins vegar að viðgerð á línum á Vestfjörðum taki lengri tíma.

Fram kemur að þegar staðan hafi verið verst hafi straumleysi verið mjög víðtækt og rekstur flutningskerfisins tvísýnn og þannig sé staðan enn. Tjón Landsnets sé talsvert og talið að það verði líklega yfir 100 milljónir króna. Einnig segir að á fjórða tug viðgerðarmanna á vegum Landsnets séu að störfum á þeim stöðum þar sem línur löskuðust eða á leið á vettvang.

Úr fréttatilkynningu Landsnets:

„Tvö möstur eru brotin í Rangárvallalínu 1, milli Varmár og Akureyrar, við bæinn Sólheima í Blönduhlið og eru línumenn komnir þangað að sunnan með tæki og efni. Standa vonir til að viðgerð á línunni ljúki í kvöld. Viðgerðarmenn sem komu á vettvang í Blönduhlíð fyrr í dag tryggðu að ekki stafaði hætta af línuleiðurunum sem féllu niður á þjóðveg eitt og jafnframt útbjó Vegagerðin hjáleið framhjá staðnum og er vegurinn um Blönduhlíð aftur opinn.

Þrettán manna flokkur lauk fyrr í dag viðgerð á Eyvindarárlínu 1, milli Hryggstekks í Skriðdal og Egilsstaða. Hún var biluð rétt við Hryggstekk og er nú komin í gagnið á ný. Viðgerðaflokkurinn fyrir austan er nú að störfum við Teigarhornslínu 1, milli Hryggstekks og Teigarhorns í Berufirði. Nokkur möstur eru brotin í henni rétt suður af Hryggstekk og standa vonir til að viðgerð ljúki á næsta sólarhring.

Að minnsta kosti fjögur möstur eru brotin í Kópaskerslínu 1, sem liggur frá Laxárstöð út á Kópasker. Tvö eru brotin við Valþjófsstaði, um 10 km sunnan við Kópasker, og önnur tvö við Laxá. Björgunarsveitarmenn kanna nú ástand línunnar og var hún tekin í sundur til að koma á rafmagni í Kelduhverfi og á Þeistareykjum. Dísilstöð sér íbúum á Kópaskeri fyrir rafmagni. Sjö manna vinnuflokkur frá Landsneti er á leið á svæðið með tæki og viðgerðarefni. Standa vonir til þess að viðgerð ljúki á morgun, eða í síðasta lagi á fimmtudag.

Mjög miklar skemmdir urðu á raflínum á Vestfjörðum í óveðrinu í nótt og eru a.m.k. 17 möstur brotin í Breiðadalslínu 1, sem liggur milli Mjólkárvirkjunar og Breiðadals við Önundarfjörð, við Gemlufall í Dýrafirði. Níu manna flokkur er á leið vestur en ljóst er að viðgerð mun taka nokkra daga þrátt fyrir að aðstæður til viðgerða séu sæmilegar, þar sem bilunin er á láglendi en ekki uppi á heiði. Þar til Breiðadalslína 1 verður komin í lag fá norðanverðir Vestfirðir rafmagn frá varaaflsstöðinni í Bolungarvík. Meðan á því stendur verða skerðingar hjá kaupendum ótryggrar orku vestra.

Enn er verið að meta tjónið af völdum óveðursins í gærkvöldi og nótt. Aðaláhersla hefur verið lögð á að koma raforkuflutningum í lag á nýjan leik en fyrstu ágiskanir benda þó til að kostnaðurinn verði líklega yfir 100 milljónum króna. 

Straumleysi í flutningskerfi Landsnets var óvenju víðtækt þegar verst lét í óveðrinu síðastliðna nótt og var rekstur kerfisins tvísýnn þegar straumlaust varð samtímis á Vestfjörðum, hluta Norðurlands og á Austurlandi. Rekstur flutningskerfisins er enn áhættusamur þar sem byggðalínuhringurinn er rofinn og kerfið rekið í aðskildum rekstrareiningum, svokölluðum eyjarekstri.

Truflanir og tjón varð einkum á eldri línum Landsnets á stöðum þar sem staðbundið vindalag og ísing sköpuðu afbrigðilegar aðstæður. Engar teljandi truflanir urðu hins vegar á línum félagsins á hæstu spennu og hálendislínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert