Hraðpeningamáli aftur vísað frá dómi

Málinu var aftur vísað frá héraðsdómi í dag.
Málinu var aftur vísað frá héraðsdómi í dag.

Máli Sverris Einars Eiríkssonar gegn Hraðpeningum og eigendum þess, Skorra Rafni Rafnssyni og Jumdon Micro Finance, var vísað frá dómi í dag í annað skiptið. Sverrir er einn af stofnendum félagsins og hefur sakað Skorra um að hafa sölsað félagið undir sig með ólögmætum hætti.

Hraðpeningar ehf var stofnað í desember árið 2009 af þeim Skorra, Sverri og Gísla Rún­ari Rafns­syni. Er það nú í eigu félagsins Jumdon Finance sem var stofnað árið 2011 á Kýpur. Sama ár keypti Jumdon Hraðpen­inga. Jumdon Fin­ance er einnig eig­andi smá­lána­fyr­ir­tæk­is­ins Múla ehf. auk þess sem Hraðpen­ing­ar eiga allt hluta­fé í smá­lána­fyr­ir­tæk­inu 1909 ehf. Sam­an starfa þessi þrjú fyr­ir­tæki und­ir merkj­um fé­lags sem kall­ast Neyt­endalán ehf.

Engar frekari upplýsingar hefur verið hægt að finna um félagið Jumdon, eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá, og var ástæða þess að málinu var síðast vísað frá að stefna hefði þurft Jumdon sem eiganda Hraðpeninga. Sagði lögmaður Sverris þá hafa verið ómögulegt að stefna félaginu þar sem það væri í raun ekki til.

Með tilkynningu til fyrirtækjaskrárinnar, sem dagsett er 6. janúar 2010, og móttekin daginn eftir, er upplýst að samkvæmt fundi í félaginu þann dag skuli stjórn þess þannig skipuð að formaður stjórnar og eini stjórnarmaður verði Skorri Rafn. Undir tilkynninguna rita allir ofangreindir stofnendur félagsins, en stofntilkynning hafði borist fyrirtækjaskrá 17. desember 2009 þar sem þremenningarnir voru allir skráðir eigendur félagsins.

Samkvæmt ársreikningum Hraðpeninga fyrir 2009 og 2010 er Skorri Rafn sagður eigandi alls hlutafjár í félaginu en samkvæmt ársreikningi ársins 2011 er erlent félag með heitið Jumdon Micro Finance Ltd., með heimili á Kýpur, sagt eigandi að öllu hlutafé í félaginu.

Frétt mbl.is: Treysta megi á íslenskan félagarétt

Skorri Rafn Rafnsson
Skorri Rafn Rafnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert