Hollendingurinn áfram á Íslandi

Farbannsúrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness núna síðdegis.
Farbannsúrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness núna síðdegis. mbl.is/Ómar

Hollendingur sem grunaður er um aðild að umfangsmiklu fíkniefnasmygli var úrskurðaður í farbann til 19. janúar nk. í héraðsdómi Reykjaness í dag. Þetta staðfestir verjandi hans, Ómar Örn Bjarnþórsson, í samtali við mbl.is. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi hér á landi ásamt samlanda sínum og tveimur Íslendingum frá septemberlokum vegna gruns um innflutning tuga kílóa af sterkum fíkniefnum sem komu til landsins með Norrænu í haust. 

Frétt mbl.is: Tugir kílóa af sterkum fíkniefnum

Ekki er heimilt að krefjast lengra varðhalds en tólf vikna samkvæmt lögum um meðferð sakamála nema brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess. Í samtali við mbl.is í morgun benti Ómar hins vegar á að slíkir hagsmunir væru væntanlega ekki uppi á borðinu í ljósi þess tíma sem hinir grunuðu hafa þegar setið í varðhaldi. Hann sagði hins vegar að þrátt fyrir það kysi skjólstæðingur sinn, sem er nokkuð undir greindarmörkum, helst að sitja áfram á Kvíabryggju þyrfti hann að dvelja hér á landi á annað borð, enda hafi hann engan fastan samastað hér eða tengsl við landið. 

Nú er hins vegar búið að koma manninum fyrir á gistiheimili í Reykjavík, auk þess sem hann fær dagpeninga frá lögreglunni meðan hann er í farbanni.

Frétt mbl.is: Kysi helst fangelsið áfram

Rannsókn málsins stendur enn yfir, en Aldís Hilmarsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is í morgun að ekki væri ljóst hvenær henni myndi ljúka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert