Tugir kílóa af sterkum fíkniefnum

Fjórir einstaklingar, tveir Íslendingar og tveir Hollendingar, sitja í gæsluvarðhaldi eftir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á tugi kílóa af sterkum fíkniefnum. Efnin fundust í bifreið síðastliðinn mánudag en bifreiðin kom til landsins með Norrænu 22. september.

Fréttablaðið greinir frá málinu í dag en fólkið sem sætir gæsluvarðhaldi er á þrítugs og fertugsaldri. Haft er eftir Aldísi Hilmarsdóttur aðstoðaryfirlögregluþjóni að málið sé stórt á íslenskan mælikvarða en rannsókn á því gangi vel. Efnagreining hafi farið fram á efnunum en ekki sé hægt að veita upplýsingar um það um hvaða efni sé að ræða.

Fram kemur í fréttinni að þrír einstaklinganna hafi verið úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald og einn þeirra í viku, en Hæstiréttur hafi staðfest alla úrskurðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert