27 þúsund skrifað undir áskorun Kára

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Golli

Tuttugu og sjö þúsund manns hafa skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þetta staðfestir Kári í samtali við mbl.is. Með undirskriftum sínum krefst fólk þess að Íslendingar verji 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál í stað 8,7% sem nú er gert.

Undirskriftasöfnunin hófst fyrir um einum og hálfum sólarhringi síðan og var Kári sáttur með þátttökuna. Hann tók fram að það eina sem hann sé að gera með þessari söfnun sé að kanna vilja fólks í samfélaginu fyrir að setja aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustuna. „Það er gat á milli vilja stjórnvalda og vilja samfélagsins,“ segir Kári.

Segir hann að undanfarin 25 ár hafi íslensku samfélagi ekki tekist að halda uppi góðu heilbrigðiskerfi og því sé hann ekki að benda fingri í átt að einhverjum einum stjórnmálamanni eða ríkisstjórn, því þetta hafi viðgengist svo lengi.

Með undirskriftasöfnuninni segist hann vilja að samfélagið átti sig á hvernig það vilji skilgreina sig. „Við þurfum að sýna meiri hjartahlýju gegn þeim sem minna mega sín,“ segir hann og bætir við: „Við megum hundar heita ef við skrifum ekki undir þetta í stórum hópum.“

Frétt mbl.is: Kári safnar undirskriftum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka