Forsætisráðherra „fýldur út í alla“

Kári Stefánsson.
Kári Stefánsson. mbl.is/Kristinn

„Forsætisráðherra heldur því fram að það sé vafasamt að við eyrnamerkjum ákveðinn hundraðshluta af landsframleiðslu til heilbrigðismála. Ég og í það minnsta aðrir 47500 Íslendingar eru honum ósammála. Okkur finnst eðlilegt að nota ákveðinn hundraðshluta þess sem aflast til þess að sinna þeim sem eru meiddir og sjúkir í okkar samfélagi og til þess að hlúa að heilsu þeirra sem enn eru hraustir.“

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á Facebook-síðu í dag þar sem hann bregst við ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um undirskriftasöfnun Kára um aukið fé til heilbrigðiskerfisins. Kári segir Sigmund hafa gripið til þess ráðs að reyna að vera fyndinn á kostnað söfnunarinnar. Ekki er sú aðferð mér framandleg og hef ég fallið fyrir henni einu sinni eða tvisvar á ævi minni.“

Kára þykir forsætisráðherra hins vegar ekki hafa tekist vel upp í þeim efnum. „Það er með mælikvarða á skemmtilegheit eins og hundraðshluta af vergri landsframleiðslu að hann er afstæður og svo markast hann af því hversu skemmtilegir menn eru almennt. Upp á síðkastið er forsætisráðherra búinn að vera svo fýldur út í allt og alla og þá sérstaklega þjóðina sem hann á að stjórna, að það væri dónaskapur við roðið að segja að hann sé búinn að vera eins og það, snúið í hundskjapti. Það var því ekki við miklu að búast og það fengum við, dapurlegan pistil sem var þeim mun dapurlegri sem hann átti að vera fyndinn.“

Kári segir það hafa gefist illa að leggja það í hendur stjórnmálamanna á hverjum tíma að ákveða hversu mikið heilbrigðiskerfið fái af kökunni. „Máli sínu til stuðnings nefnir forsætisráðherra Sierra Leone og önnur fátæk ríki sem leggja stærri hluta af sinni landsframleiðslu til heilbrigðismála en Ísland gerir, og so what? Það sýnir einfaldlega að sú fátæka þjóð sem býr í því stríðshrjáða landi sem við köllum Sierra Leone er reiðubúin til þess að fórna hlutfallslega meiru en við til þess að hlúa að þeim sem minna mega sín. Sigmundur Davíð, við eigum að taka þetta fólk okkur til fyrirmyndar hvað þetta snertir í stað þess að tala um þau af lítilsvirðingu.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

 

Forsætisráðherra tjáði sig um undirskriftarsöfnunina á fésbókarsíðu sinni í gærmorgun og greip til þess ráðs að reyna að...

Posted by Kari Stefansson on 26. janúar 2016

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka