Forsætisráðherra svarar Kára fullum hálsi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fer háðulegum orðum um Kára Stefánsson og undirskriftarsöfnun hans fyrir heilbrigðiskerfið í pistli á vefsíðu sinni. Hann segist velta fyrir sér um hvað söfnunin snýst þegar fólki býðst að skrifa nafn sitt undir „gríðarstóra framboðsmynd“ af Kára.

Í pistlinum segir Sigmundur Davíð að Kári, sem hann kallar pennavin sin og mannvin, hafi tekið það óstinnt upp að hann væri sammála honum um mikilvægi stórfelldrar eflingar heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

„Eins og menn þekkja er Kára tamt að úthúða þeim sem eru ósammála honum en ég hafði ekki gert mér grein fyrir að það sama ætti við um þá sem tala máli hans (án þess þó að vera lögmenn),“ skrifar forsætisráðherra og vísar þar líklega til máls sem Kári höfðaði gegn lögmanni sínum, Karli Axelssyni, og tapaði í Hæstarétti.

„Hefðbundinn fúkyrðaflaumur“

Forsætisráðherra hefur gert athugasemd við að í undirskriftasöfnuninni sé vísað til þess að stjórnvöld verji tilteknu hlutfalli vergrar landsframleiðslu (VLF) til heilbrigðismála. Sigmundur Davíð segir Kára hafa talið sig gera grín að honum með því og segist forsætisráðherra viðurkenna að hann skilji ekki skilgreiningu Kára á húmor.

Sigmundur Davíð segir Kára, sem hann kallar „miskunnsaman samfélagsrýni“ hafa talið sig gera lítið úr fátækjum ríkjum eins og Síerra Leóne þegar hann benti á að hærra hlutfalli VLF væri varið til heilbrigðismála þar en á Norðurlöndunum vegna fátækar landsins.

Þegar Kára hafi verið bent á það í sjónvarpsþætti að hann færi rangt með tölur og samanburðurinn og viðmiðin sem hann beitti fyrir sig væru röng hafi viðbrögð hans verið „hefðbundinn fúkyrðaflaumur“ með fullyrðingum um að fólk sem gagnrýndi hann væri sama um þá sem minna mega sín eða vildi viðhalda þjáningum. Að lokum hafi hann þó upplýst að málið byggðist ekkert á þessum prósentutölum.

„Semsagt átak um að tiltekin prósenta af landsframleiðslu færi í heilbrigðismál byggðist ekki á tölum. Sjálfsagt er það rétt að átakið snúist ekki um prósentutölur. Enda má velta fyrir sér um hvað undirskriftasöfnun snýst þar sem fólki býðst að skrifa nafnið sitt undir gríðarstóra framboðsmynd af Kára Stefánssyni?“ spyr formaður Framsóknarflokksins.

Efnahagshrun ekki leiðin að bættri heilbrigðisþjónustu

Líti menn hins vegar svo á að undirskriftasönfun Kára Stefánssonar snúist almennt um vilja til að efla heilbrigðiskerfið þá er hver slík undirskrift krafa um að menn finni bestu leiðina til að láta það gerast, að mati Sigmundar Davíðs. Þá ættu menn að fagna umræðu um málið og jafnvel láta sig hafa það að fá ábendingar.

Hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála af landsframleiðslu hafi rokið upp á Íslandi, sem hlutfall af VLF, við efnahagshrunið en hrunið svo vegna niðurskurðar. Segir forsætisráðherra menn þó varla vilja halda því fram að besta leiðin til að bæta heilbrigðisþjónustu sé efnahagshrun. Í stað þess að sveiflast eftir landsframleiðslu þurfi heilbrigðisútgjöld að vera næg og nógu vel fjármögnuð til að veita nauðsynlega þjónustu óháð efnahagssveiflum.

„Það þarf yfirvegaða umræðu og skynsamlegar ráðstafanir svo vel takist til við eflingu heilbrigðiskerfisins. Þá verða menn að þola umræðu um hvað snýr upp og niður og hvaða leiðir séu bestar til að halda áfram hinni miklu uppbyggingu síðustu ára,“ skrifar Sigmundur Davíð.

Pistillinn á vefsíðu Sigmundar Davíðs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka