Leit illa út og í fráhvörfum

Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. Rax / Ragnar Axelsson

Sigurður Hólm Sigurðsson virtist í slæmu líkamlegu ástandi og í fráhvörfum vegna fíkniefnaneyslu þegar hann kom á Litla-Hraun daginn áður en hann lést, að mati fangavarða. Hann hafi líklega fengið lyf við fráhvörfunum við komuna í fangelsið. Hvorki þeir né sjúkraflutningamenn urðu varir við neitt óvenjulegt í aðdraganda andlátsins.

Nokkrir fangaverðir gáfu skýrslu fyrir Héraðsdómi Suðurlands í dag í máli ákæruvaldsins gegn Annþóri Karlssyni og Berki Birgissyni sem það telur hafa valdið dauða Sigurðar með því að veita honum högg eða spark sem leiddi til blæðingar í milta.

Þeir voru allir sammála um að Sigurður hafi litið illa út við komuna í fangelsið og báru margir þeirra að hann hafi sýnt glögg merki um fráhvörf. Hann hafi hins vegar ekki virst veikur um fram það.

Eftir að fangaverðir voru kallaðir til í klefa hans þar sem hann lá hálfmeðvitundarlaus og ælandi upp í sig hófust endurlífgunartilraunir. Hann virtist hafa farið í hjartastopp þar sem hjartastuðtæki gaf merki um að ekki stoðaði að gefa stuð.

Hvorki fangaverðirnir né sjúkraflutningamenn sem komu fyrir dóminn sögðust hafa orðið varir við neitt óeðlilegt umfram aðstæður þegar þeir komu að og sinntu Sigurði. Annar sjúkraflutningamaðurinn bar að hann teldi sig hafa brotið rifbein í Sigurði þegar hann reyndi að hnoða hjarta hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert