Landsnet kærir úrskurð héraðsdóms

Landsnet telur öryggi flutningskerfisins ófullnægjandi.
Landsnet telur öryggi flutningskerfisins ófullnægjandi. mbl.is/RAX

Landsnet hefur kært til Hæstaréttar úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í liðinni viku, þar sem rétturinn hafnaði aðfararbeiðnum Landsnets um eignarnám á landhluta úr fjórum jörðum á Reykjanesi vegna lagningar svokallaðrar Suðurnesjalínu 2.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að héraðsdómur hafi talið varhugavert að fallast á kröfu Landsnets vegna óafturkræfra umhverfisáhrifa, áður en Hæstiréttur hefði leyst úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsheimildar vegna umræddra jarða, sem og ágreiningi um lögmæti leyfisveitinga Orkustofnunar og sveitarfélagsins Voga vegna línubyggingarinnar.

Áætlaði framkvæmdir á næstu vikum

Ákvörðun um eignarnám vegna jarðanna fjögurra lá fyrir í febrúar 2014 og héraðsdómur staðfesti ákvörðun um eignarnám í júní 2015. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar og hefst málflutningur í næsta mánuði. 

Landsnet segir framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 hafa legið fyrir um nokkurt skeið frá sveitarfélögunum Grindavík, Hafnafjarðarbæ, Reykjanesbæ og Vogum, ásamt leyfi Orkustofnunar fyrir byggingu og rekstri línunnar.

Áætlaði Landsnet að hefja framkvæmdir á næstu vikum. Búið er að semja við Íslenska aðalverktaka um undirbúningsvinnuna og á þeim framkvæmdum að ljúka í haust, en ráðgert er að reisa línuna sumarið 2017.

Vilja styrkja flutningskerfið

Suðurnesjalína 2 er hluti af verkefninu Suðvesturlínur en umhverfismat vegna framkvæmdanna var samþykkt með skilyrðum árið 2009, að því er fram kemur í tilkynningu Landsnets.

Segir þar að í ársbyrjun 2011 hafi verið ákveðið að byrja á styrkingu flutningskerfisins á Reykjanesi þar sem Suðurnesjalína 1 er fulllestuð en Landsnet telur öryggi kerfisins ófullnægjandi, þar sem línan er eina tengingin frá Reykjanesskaganum við meginflutningskerfi Landsnets. 

Nýja línan fylgi að mestu Suðurnesjalínu 1 frá Hafnarfirði að Rauðamel, nema austast á svæðinu þar sem gert sé ráð fyrir að hún liggi í nýju línubelti, töluvert fjær núverandi byggð í Hafnarfirði.

Landsnet segir að við val á leið línunnar hafi verið orðið við tilmælum sveitarfélaga á svæðinu og helstu fagstofnana um að reisa nýju línuna í núverandi mannvirkjabelti, þar sem eru fyrir Suðurnesjalína 1 og Reykjanesbraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert