Ráðgjöf ætti að vera refsiverð

Bryndís Kristjándóttir skattrannsóknastjóri.
Bryndís Kristjándóttir skattrannsóknastjóri. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sögulega hefur gengið illa að fá upplýsingar frá ríkjum sem teljast skattaskjól. Þetta sagði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um aðgerðir gegn skattaskjólum. Staða væri þó betri í dag. Bæði væri löggjöfin betri, upplýsingarmiðlun meiri og færri félög stofnuð í skattskjólum.

Frétt mbl.is: Verður hrópandinn í eyðimörkinni

Það sem helst hefði þvælst fyrir öflun upplýsinga frá ríkjum sem teldust til skattaskjóla væri sú staðreynd að þau gerðu gjarnan litlar sem engar kröfur samkvæmt löggjöf sinni til félaga um slíkar upplýsingar. Líkt og til að mynda um ársreikninga. Nefndi hún í því sambandi Bresku jómfrúreyjar. Þetta hafi þannig verið talsvert þungt til fortíðar litið.

Bryndís sagði þetta hafa komið niður á gagnsemi upplýsingaskiptasamninga við þessi ríki. Fulltrúar ríkisskattstjóra bentu hins vegar á að slík ríki hefðu þó í seinni tíð verið hjálpleg við að leiðbeina íslenskum skattayfirvöldum hvernig væri rétt að orða beiðnir um upplýsingar þannnig að stjórnvöld þar gætu farið fram á þær.

Spurð hvaða lagabreytingar mætti ráðast í til þesss að gera skattyfirvöldum auðveldara að taka á slíkum málum sagði Bryndís ýmislegt hægt að gera. Nefndi hún til að mynda refsiákvæði ef upplýsingum væri ekki skilað inn og auknar heimildir til þess að endurákvarða skatta. Málið snerist í grunninn um aðgengi að upplýsingum númer eitt, tvö og þrjú.

Spurð hvort rétt væri að banna það að eiga félög í skattaskjólum sagði Bryndís hugmyndina vera róttæka og hún hafi ekki hugsað hana til enda. Slíkt hefði hvergi verið gert annars staðar. Spurð hvort gera ætti ráðgjöf um að skrá félög í skattaskjóli refsiverða sagðist hún telja rétt að taka það til skoðunar. Þá til að mynda á þeim forsendum að þeir væru meðsekir í mögulegum brotum. Fólk hefði yfirleitt ekki farið þessa leið að eigin frumkvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert