Helgi Hjörvar finnur fyrir fordómum

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar. mbl.is/Golli

Þingmaðurinn Helgi Hjörvar, sem býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar, segist í fyrsta sinn á 20 ára stjórnmálferli sínum hafa fundið fyrir efasemdum og fordómum í sinn garð vegna sjónskerðingar sinnar.

„En núna mæti ég semsagt í fyrsta sinn viðhorfum um að ég geti ekki ráðið við það verkefni að vera formaður Samfylkingarinnar vegna fötlunar minnar,“ skrifar Helgi á Fésbókarsíðu sína.

„Einn skrifar um þetta á opinberu fésbókarsíðunni minni, ég hef fengið tölvupóst með efasemdum um getu mína til formennsku að þessu leyti og ýmsar athugasemdir í símtölum og samtölum, fyrir nú utan það sem fólk ræðir þar sem ég heyri ekki til. Mér hefur alltaf reynst best að tala opinskátt og hispurslaust um fötlun mína og vil nota þetta tækifæri til að ræða þessar efasemdir og fordóma.“

Frétt mbl.is: Helgi Hjörvar gefur kost á sér

Ekki jafn sjálfsagt að vera í fremstu forystu?

Helgi segist vel geta orðið formaður stjórnmálaflokks þrátt fyrir fötlun sína og bætir við að fólk með fötlun hafi starfað í sveitarstjórnum og á þingi í vaxandi mæli. „En kannski það sé ekki jafn sjálfsagt að við eigum heima í fremstu forystu, svo sem ráðherraembætti eða flokksformennsku. Að minnsta kosti verð ég fyrst var svona efasemda nú þegar málið snýst um flokksformennsku,“ skrifar hann.

Helgi telur að aldrei hafi verið kjörnir  flokksformenn á Íslandi eða ráðherrar úr röðum fatlaðra. „Kannski er það svo að sumum finnist við ágæt með en bara ekki  í æðstu forystu.“

Les ekki með sama hætti og aðrir 

Hann bætir við: „Þó ég telji að ég geti ekki síður en aðrir gegnt æðstu trúnaðarstörfum, þá verð ég auðvitað að viðurkenna að ég les ekki með sama hætti og aðrir og verð að reiða mig á endursögn annarra um margt. Ég á erfitt með að vera virkur á fésbók, ræð illa við spjall þar eða að fylgjast með vinum mínum einsog ég vildi,“ skrifar hann.

„Það getur líka verið óheppilegt fyrir stjórnmálamann að sjá ekki kjósendur, virða þá ekki viðlits, standa einn úti í horni af því að maður sér engan sem maður þekkir o.s.frv. Auðvitað eru þessir gallar og margir fleiri á því að hafa sjónlausan mann í pólitík en mér hafa alltaf þótt þeir léttvægir hjá kostunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert