„Fjölskyldan mín vill mig feiga“

„Fjölskyldan mín vill mig feiga,“ segir Salome Esteves sem bíður þess nú að vera send úr landi eftir að hafa beðið hér á landi í tæp tvö ár eftir því að fá úrskurð í umsókn hennar um hæli. Hún kemur úr múslimskri fjölskyldu í Miðbaugs-Gíneu sem samþykkir ekki ástarsamband hennar við kristinn mann.

Nígeríumaðurinn Stephen Ajemiare er unnusti Salome en hann er nú á fjórða degi í hungurverkfalli til að mótmæla úrskurði um að synja þeim og börnum þeirra, Baryan og Önnu, um hæli og dvalarleyfi hér á landi vegna mannúðarsjónarmiða.

Nú bíða þau þess að verða send úr landi en fjölskyldan kom til landsins fyrir tveimur árum - hann kom í maí en hún í september. Þau sóttu bæði um hæli við komuna en fengu lokaúrskurð sl. föstudag, rúmum tveimur árum eftir að hafa fyrst komið til landsins.

Önnur ástæða fyrir því að fjölskyldan kvíður mikið fyrir að fara aftur er sú að Salome þjáist af sykursýki og þarf að sprauta sig með insúlíni 3-4 sinnum á dag og þau segja afar erfitt að verða sér úti um rétt lyf við sykursýki í heimalöndum sínum. Raunar þurfi maður að vera milljónamæringur til þess.

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála á synjuninni kom í tvennu lagi þar sem Stephen og Salome eru ekki gift. Þar segir m.a. að ósamræmi sé í frásögn Salome. Þá er tekið fram að ofbeldi gegn konum sé útbreitt í Miðbaugs-Gíneu en hinsvegar geti hún ekki sýnt fram á að hún muni verða fyrir ofsóknum snúi hún aftur til landsins.

mbl.is hitti fjölskylduna í Ytri-Njarðvík í vikunni þar sem hún býr en sonurinn Baryan hefur verið á leikskóla þar frá því í haust. Þau segjast eiga þá ósk heitasta að fá vinnu hér á landi til að geta skapað börnum sínum framtíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert