Dagskrá víða um verslunarmannahelgina

Margir gista í tjaldi um verslunarmannahelgina.
Margir gista í tjaldi um verslunarmannahelgina. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um verslunarmannahelgina, en ýmiss konar útihátíðir fara fram víða um land um helgina í ár. Dagskrár hátíðanna liggja að stórum hluta fyrir og geta Íslendingar því farið að undirbúa ferðalög verslunarmannahelgarinnar.

Þjóðhátíð

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fer fram í ár líkt og önnur um verslunarmannahelgina.  Húkkaraballið markar upphaf hátíðarinnar, en þar munu GKR, Herra Hnetusmjör og Sturla Atlas koma fram. Brekkusöngurinn, blysin og brennan eru fastir liðir á hátíðinni og á meðal atriða eru Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti, Quarashi og Jón Jónsson.

Íslensku sumarleikarnir

Fjölskylduhátíðin Íslensku sumarleikarnir verður haldin á Akureyri, þar sem alls kyns jaðaríþróttir, þrekraunir, útivist og leikir, verða í brennidepli. Keppt verður í strandblaki, súluhlaupi og fjallahjólum, svo eitthvað sé nefnt. Þá verða skemmtistaðir bæjarins opnir og meðal þeirra sem þar koma fram eru Páll Óskar og Skítamórall.

Mýrarbolti

Á Ísafirði verður Evrópumótið í mýrarbolta haldið í 13. sinn. Mótið verður sett á föstudeginum og hefst keppni á laugardegi. Í Edinborgarhúsinu verða síðan böll öll kvöldin, þar sem Blazroca, Aron Can og Páll Óskar eru meðal þeirra sem spila.

Neistaflug

Neistaflug í Neskaupstað verður á sínum stað. Meðal þess sem hátíðin býður upp á er íþróttaálfurinn og Solla stirða, sem sjá um upphitun fyrir Kjöríshlaup 12 ára og yngri, Sirkus Íslands verður með skemmtileg atriði og Eyþór Ingi og Magni Ásgeirsson munu syngja á „90's“-rokktónleikum á fimmtudeginum.  

Síld á Siglufirði

Fjölbreytt fjölskyldudagskrá verður á Síldarævintýrinu á Siglufirði. Meðal atriða á hátíðinni eru Söngvaborg, Latibær og Einar töframaður, auk þess sem Amabadama og Hreimur og Made in sveitin koma þar fram.

Innipúkinn í Reykjavík

Tónlistarhátíðin Innipúkinn verður á Húrra og Gauki á Stöng í Reykjavík, en hátíðin verður haldin í 15. sinn. Á hátíðinni spila sveitir á borð við Retro Stefson, Vök, Vagina boys, Dikta og Mammút.

Flúðir

Á Flúðum fer stærsta hátíð Suðurlands um verslunarmannahelgina fram - þ.e. á fasta landinu. Dagskráin hefst á fimmtudagskvöldinu, en á hátíðinni verður t.a.m. „pub-quiz“, leiktæki fyrir börnin auk þess sem leikhópurinn Lotta skemmtir og dansleikir öll kvöldin, þar sem Á móti sól og Sálin hans Jóns míns leika fyrir dansi ásamt fleirum. 

Vímuefnalausar hátíðir

Nokkrar vímulausar hátíðir verða þá haldnar um helgina. Sæludagar verða í Vatnaskógi um verslunarmannahelgina. Enn er verið að skipuleggja hátíðina og liggur dagskrá því ekki fyrir.

Í Borgarnesi fer unglingalandsmót UMFÍ fram, en það er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð. Mótið er fyrir 11-18 ára og keppt verður meðal annars í körfubolta og fótbolta, frjálsum, glímu, ólympískum lyftingum, skotfimi og stafsetningu. Kvöldvökur verða haldnar alla mótsdagana og meðal þeirra sem fram koma á þeim eru Amabadama, Úlfur Úlfur og bræðurnir Friðrik Dór og Jón Jónsson.

Bindindishátíðin Kotmót, kristilegt fjölskyldumót Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi, verður haldin í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð um verslunarmannahelgina. Hátíðin býður upp á trúboðanámskeið, bænastundir, biblíulestur og grillpartí, ásamt fleiru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka