Vantar varanleg heimili

Óli er feiminn kisi sem vantar framtíðarheimili.
Óli er feiminn kisi sem vantar framtíðarheimili. Ljósmynd/Villikettir

Fjöldi fólks hefur haft samband við félagið Villiketti og boðið fram aðstoð sína vegna kattanna hundrað sem bjuggu við bágar aðstæður í einu og sama húsinu. Villikettir hafa komið mörgum kattanna til bjargar en nú er aðaláhyggjuefnið að sögn Villikatta að finna þeim framtíðarheimili.

Vantar varanleg heimili

„Við finnum fyrir miklum stuðningi frá almenningi og fyrirtækjum,“ segir Olga Perla Nielsen, formaður Villikatta. Margir kattanna eru komnir á heimili en að sögn Olgu er meira um að fólk sé tilbúið að fóstra kettina en að veita þeim varanlegt heimili. Þá er meira spurt um kettlinga en erfiðara reynist að finna fullorðnum kisum heimili. 

Villikettir hafa tekið við töluverðu magni af mat, kattasandi og öðrum búnaði, bæði frá einstaklingum og gæludýra- og fóðurfyrirtækjum sem vilja leggja sitt af mörkum. Villikattakonur eru gríðarlega þakklátar fyrir þann stuðning sem þær hafa fundið fyrir, en þær hafa vart haft undan að svara símtölum þeirra sem vilja rétta fram hjálparhönd.

Örlög kattanna óljós

Enn þá eru í húsinu á milli 30 og 40 kettir og er óljóst hver örlög þeirra verða. Von er á viðbrögðum Matvælastofnunar á morgun þegar starfsfólk sem annast málið snýr aftur til vinnu úr sumarleyfum. Olga kveðst ekki mjög bjartsýn um örlög kattanna sem eftir eru og telur það liggja í loftinu að þeir fái ekki að lifa mikið lengur.

„Það virðist ómögulegt að fá eitthvað annað í gegn en hefur verið framkvæmt áður,“ segir Olga og vísar þar til fordæma þar sem köttum hefur verið lógað í sambærilegum tilfellum. MAST hefur vísað því á bug að lógun kattanna sé eina lausnin sem til greina komi í málinu, en útilokar það þó ekki.

Einn hundanna með krabbamein

Í húsinu voru einnig sex hundar en fjórir þeirra eru nú í umsjá Hundasamfélagsins. Hinir hundarnir tveir verða áfram hjá eiganda, að sögn Villikatta eru þeir nokkuð vel haldnir en orðnir gamlir.

Hundarnir eru nokkuð æstir eftir að hafa verið lokaðir inni í litlu rými í langan tíma og hefur einn þeirra verið greindur með krabbamein. Hundasamfélagið hlúir vel að hundunum og eru vonir bundnar við að krabbameinssjúka hundinum takist að bjarga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert