Greiðslubyrði barnafólks þyngri en barnlausra

Samkvæmt frumvarpinu munu námsmenn, sem uppfylla tilteknar kröfur um námsframvindu, …
Samkvæmt frumvarpinu munu námsmenn, sem uppfylla tilteknar kröfur um námsframvindu, eiga rétt á námsstyrkjum óháð félagslegri stöðu. mbl.is/Hjörtur

Bandalag háskólamanna (BHM) hefur sent mennta- og menningarmálaráðuneytinu athugasemdir við frumvarp til laga um námslán og námsstyrki sem nú liggur fyrir Alþingi. Í athugasemdunum er m.a. bent á að ef hætt verður að tekjutengja endurgreiðslu námslána, eins og lagt er til í frumvarpinu, hafi það í för með sér grundvallarbreytingu á eðli námslánakerfisins.

BHM hvetur til þess að fram fari frekari umræða og vinna til að tryggja að greiðslubyrði námslána verði áfram sanngjörn líkt og í núverandi kerfi. Einnig lýsir bandalagið þungum áhyggjum af greiðslubyrði lántakenda í yngsta aldurshópnum, fari svo að frumvarpið verði að lögum, sem og þeirra sem tilheyra láglaunastéttum háskólamenntaðra og hópum sem standa félagslega veikt að vígi.

Foreldrar skulda meira en aðrir

Þá er í athugasemdunum áréttuð gagnrýni sem BHM hefur áður sett fram á það fyrirkomulag að lánsfjárhæðir fari eftir félagslegri stöðu fólks. Bent er á að vegna þessa skuldi fjölskyldufólk og einstæðir foreldrar almennt meiri námslán að loknu námi en þeir sem einir eru. Verði hætt að tengja afborganir við tekjur, líkt og boðað er í frumvarpinu, verði greiðslubyrði barnafólks þyngri en barnlausra. BHM gerir alvarlegar athugasemdir við þetta.

Samkvæmt frumvarpinu munu námsmenn, sem uppfylla tilteknar kröfur um námsframvindu, eiga rétt á námsstyrkjum óháð félagslegri stöðu. BHM fer fram á að kannaðir verði möguleikar á því að kerfið verði með þeim hætti að upphæð námsstyrks fari eftir félagslegri stöðu en lánsfjárhæðir verði þær sömu fyrir alla.

Enn fremur gerir BHM athugasemd við þau áform, sem felast í frumvarpinu, að heimila stjórn Lánsjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) að útvista daglegum rekstri sjóðsins. Að mati bandalagsins verður ekki séð að þörf sé á því að færa afgreiðslu námslána til einkafyrirtækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka