Niðurstaða líklega fyrir áramót

Frá framkvæmdunum á Bakka.
Frá framkvæmdunum á Bakka. mbl.is/Helgi Bjarnason

Ekki liggur fyrir hvenær endanleg niðurstaða fæst í kærumál vegna Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála en líklega verður það fyrir áramót. Þetta segir Nanna Magnadóttir, formaður og forstöðumaður úrskurðarnefndarinnar.

Á föstudag felldi úrskurðarnefndin tvo bráðabirgðaúrskurði sem stöðva framkvæmdir við línurnar tvær, en um þær verður raforka flutt til iðjuverksmiðjunnar á Bakka við Húsavík. Nanna segir að umhverfisverndar-, útivistar- eða hagsmunasamtökum sé heimilt að kæra mál sem þessi án þess að sýna fram á að þau séu beinir aðilar að málinu.

Frá Þeistareykjavirkjun.
Frá Þeistareykjavirkjun. mbl.is/Helgi Bjarnason

Spurð hvort úrskurðarnefndinni hafi borist beiðni um flýtimeðferð á málinu segir hún að í greinargerðum Landsnets hafi verið krafist flýtimeðferðar yrði úrskurðarnefndin við kröfu um stöðvun framkvæmda.

Landvernd vill umhverfismeta fleiri valkosti en loftlínu frá Kröflu að Bakka

Í morgun sendi Landvernd frá sér tilkynningu þar sem ítrekuð var fyrri afstaða félagsins um að umhverfismeta beri fleiri valkosti en loftlínu frá Kröflu að Bakka svo draga megi úr umhverfisáhrifum.

„Skoða þarf bæði jarðstrengi og loftlínur og valkosti sem sneiða hjá verðmætum hraunum eins og Leirhnjúkshrauni og Þeistareykjahrauni, en framkvæmdir Landsnets hf. hafa nú verið stöðvaðar til bráðabirgða á þessum svæðum vegna náttúruverndarsjónarmiða,“ segir i tilkynningunni.

Frá Þeistareykjum.
Frá Þeistareykjum. Af vef Landsvirkjunar

„Núverandi umhverfismat er úrelt og tekur ekki til slíkra valkosta. Aðeins með nýju umhverfismati fæst raunhæfur samanburður um hvaða leiðir valda minnstum umhverfisáhrifum. Nýtt umhverfismat er því grundvallarkrafa.“

Landvernd hafnar því að reist verði loftlína „sem flutt geti tífalda raforkuþörf kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka. Þó svo að verksmiðjan kunni að tvöfaldast í ófyrirséðri framtíð, réttlætir það ekki svo stóra línu og minni línur duga, eins og útreikningar Landsnets hf. sýna í fréttatilkynningu fyrirtækisins,“ segir í tilkynningu Landverndar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert