Sparkaði í lögreglu með stáltá

mbl.is/Þórður

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa í ágúst árið 2015 ítrekað slegið og sparkað í tvo lögreglumenn íklæddur klossum með stáltá. Þá reyndi hann einnig að grípa í og klípa lögreglumennina eftir að þeir höfðu lagt manninn niður og reynt að halda honum þannig.

Hlaut annar lögreglumaðurinn mögulegt rifbrot, yfirborðsáverka á hægri fótlegg og mar eða tognun á innanverðum upphandlegg.

Hafði lögreglan handtekið manninn fyrr um kvöldið fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot þar sem hann hafði stolið bifreið og ekið henni undir áhrifum ávana- og fíkniefna og áfengis víðs vegar um höfuðborgarsvæðið áður en hann var að lokum stöðvaður í Kópavogi.

Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni fyrir að hafa í nóvember sama ár veist að lögreglumanni þegar reynt var að handtaka hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka