Mikil andstaða við frumvarpið

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

„Nú vil ég ekki fullyrða fyrir alla stjórnarandstöðuna en það er allavega mikil andstaða við frumvarpið eins og það liggur fyrir,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.  Óttarr segir stjórnarandstöðuna hvorki hafa hist né skipulagt sig eftir að í ljós kom að LÍN-frumvarp Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, var tekið úr allsherjar- og menntamálanefnd í ósátt.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, sagði í gær að stjórnarandstaðan myndi koma í veg fyrir að LÍN-frumvarp menntamálaráðherra yrði samþykkt þar sem frumvarpið væri ekki nógu gott. Þetta kom fram í frétt Vísis.

Þrengir aðgengi til háskólanáms 

Óttarr segir helstu gagnrýnina á frumvarpið vera að breytingar í sambandi við endurgreiðslu og rétt til styrkja þrengi möguleika til náms og þrengi aðgengi allra að háskólanámi. „Það er óásættanlegt.“

Spurður um þær breytingar sem gera á á frumvarpinu, til dæmis um auknar heimildir til að fella niður afborganir verði fólk fyrir óvæntum tekjumissi, segir Óttarr þær vissulega vera í rétta átt en gangi þó allt of stutt og taki ekki á stóru vandamálunum.

Hann segir stjórnarandstöðuna þurfa að setjast niður og ræða stöðuna í málinu áður en tekin verði ákvörðun um með hvaða hætti komið verði í veg fyrir afgreiðslu þess. „Frávísunartillaga getur vel verið leiðin til þess,“ segir Óttarr. 

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. mbl.is/Árni Sæberg

Allt of mörgum spurningum ósvarað 

„Það er ekkert launungarmál að við höfum lagst gegn þessu frumvarpi. Við teljum þessa breytingu ekki nægilega ígrundaða og þá sérstaklega þann hluta frumvarpsins sem snýr að því að verið er að afnema tekjutengingu afborgana,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. 

Katrín segir að við umfjöllun um málið hafi komið á daginn að frumvarpið muni koma mjög misjafnlega út fyrir kynin, ólíka tekjuhópa og ólíkar námsgreinar.

„Við teljum allt of mörgum spurningum ósvarað svo hægt sé að ljúka þessu máli,“ segir Katrín og að þörf sé á mun ítarlegri umfjöllun um afleiðingar kerfisins þar sem um grundvallar kerfisbreytingu sé að ræða en ekki lagfæringu á gildandi kerfi. „Það er algjör forsenda fyrir því að allt geti gengið upp að tími sé til að fara yfir málið og þannig næst sem best sátt um það.“

LÍN Lánasjóður íslenskra námsmanna námslán
LÍN Lánasjóður íslenskra námsmanna námslán mbl.is/Hjörtur

Breytingin mun koma sér verr fyrir tekjulægri hópa 

Katrín gagnrýnir frumvarpið og þá sérstaklega vaxtahækkunina og afnám tekjutengdra greiðslna en einnig að skortur sé á greiningum um hvernig kerfið muni koma út. Hún segir fólk hafa verið sammála um að æskilegt sé að byggja upp kerfi að einhverju leiti á styrkjum en ekki lánum en hins vegar sé fólk ósammála um hvernig fara eigi um námshlutann í frumvarpinu. „Við lítum á lánasjóðinn sem félagslegan sjóð sem á að jafna aðstæður fólks til náms og höfum áhyggjur af því að ef þessi breyting gangi í geng muni það koma sér verr fyrir tekulægri hópa þegar kemur að því að greiða lánin til baka.“

Þá bendir Katrín á umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands en í henni var farið ítarlega yfir hvernig nýja kerfið gætið komið verr út en núverandi kerfi, til dæmis fyrir einstæðar mæður og listnema.

„Það er mjög margt sem þarf að skoða í þessu máli að okkar mati. Nú eru afskaplega mörg stór mál enn í þinginu og það er vel þekkt að nú þarf að forgangsraða á lokametrunum,“ segir Katrín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka