Fimm útköll vegna vatnsleka

Mikið vatnsveður hefur verið í borginni síðustu daga.
Mikið vatnsveður hefur verið í borginni síðustu daga. mbl.is/Júlíus

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur þurft að sinna fimm útköllum vegna vatnsleka frá klukkan sjö í kvöld. Þá eru þeir búnir undir fleiri útköll þegar líður á nóttina. Þetta segir Óttar Karlsson, varðstjóri slökkviliðsins, í samtali við mbl.is.

„Það eru tveir bílar á tveimur stöðum úti núna frá okkur,“ segir Óttar. „Þegar það kemur svona veður þá er þetta oft svona.“

Þá segir hann útköllin dreifast nokkuð jafnt yfir byggðina, og nefnir Hafnarfjörð, Garðabæ og Reykjavík sem dæmi.

„Það geta verið ýmsar orsakir. Stundum er um að ræða gömul hús og lélegar drenlagnir, þá getur þetta komið inn í gegnum kjallaraveggina eða upp um gólfin. Þá getur vatnið líka komið upp úr niðurföllum þegar kerfið hefur ekki undan. Það er allur gangur á þessu.“

Óttar segir að í hverju tilfelli fyrir sig sé metið hvort frekari fyrirbyggjandi aðgerða sé þörf.

„Stundum getum við kallað til aðila sem fylgt geta málinu eftir. Við erum auðvitað neyðarúrræðið í þessu. Þá höfum við einnig lánað dælur einstaka sinnum, en við eigum þó ekki til margar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert