Miklir vatnavextir í Elliðaánum

Hjólastígur milli Elliðaárdals og Fossvogsdals liggur undir vatni.
Hjólastígur milli Elliðaárdals og Fossvogsdals liggur undir vatni. mbl.is/RAX

Þó ekki hafi borist fréttir af stórflóðum vegna vatnavaxta eftir úrkomu undanfarinna sólarhringa þá eru fjölmargar ár engu að síður útbólgnar, en mjög mikið rennsli hefur meðal annars verið í ám á höfuðborgarsvæðinu að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Rennsli í ám í borgarlandinu er þó farið að minnka, nema í Elliðaánum. Þar fer vatnshæðin enn vaxandi, en Elliðaárnar hafa flætt vel yfir bakka sína í dag.  Elliðaárhólminn liggur undir vatni neðan stíflu og þá flæddi inn í undirgöngin sem tengja Fossvogsdal og Elliðaárdal. Vatnið sleikir enn fremur brúargólfin á nýlegum hjólabrúm sem vígðar voru í Elliðaárdalnum í sumar.

Eins hefur Elliðavatn flætt vel yfir bakka sína og flýtur nú yfir göngustíg í Norðlingaholtinu.  Þá fór hámarksrennsli í ánni Korpu í 32 m³/s, sem er mesta flóð í Korpu síðan í febrúar  árið 1994.

Byrja á að hreinsa alla lágpunkta

Hjalti Jón Guðjónsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins, segir borgarstarfsmenn reyna að undirbúa sig jafn vel og hægt er þegar fréttist af veðurspá líkt og verið hefur undanfarna daga.

Elliðaárnar hafa flætt vel yfir Elliðaárhólmann og stíga í dalnum.
Elliðaárnar hafa flætt vel yfir Elliðaárhólmann og stíga í dalnum. mbl.is/Árni Sæberg

„Þá byrjum við á því að fara í alla svo nefnda lágpunkta, þ.e. í þau ræsi sem munu verða álagsræsi í svona veðri.“ Borgarstarfsmenn séu vel kunnir álagsstöðum í sínu hverfi og hreinsi frá ræsum og niðurföllum eftir fremsta megni til að tryggja vatninu greiða leið ofan í fráveituna og til sjávar.  

„Við vinnum í þessu á fullu og höfðum gert í a.m.k. tvo daga áður en veðrið brast á. Síðan erum við með allt okkar fólk úti í því að sópa frá niðurföllum og sjá til þess að vatn flæði ekki upp.“

Vissulega geta þó upp ýmsar ófyrirséðar aðstæður komið upp í vatnaveðri og við þeim er reynt að bregðast, berist borginni ábendingar.  „Að þessu sinni hefur ekki orðið neitt tjón í borginni, nema í kringum Elliðaárnar,“ segir Jón Hjalti og kveður flæða vel undir brýr í ánum niðri í dalnum og yfir stíga.

Þá fór reiðstígur í sundur í nágrenni Kermóafoss, sem margir borgarbúar þekka betur undir nafninu Indíánagil. „Starfsmenn borgarinnar eru núna að vinna í því að hreinsa upp og laga til eftir vatnsflauminn.“ Meiri vinnu þarf þó til að laga reiðstíginn og eins verður farið út í Elliðaárhólmann og skoðað hvort tjón hafi orðið þar, þegar vatnshæðin rénar.

„Það er nóg að gera hjá starfsmönnum borgarinnar núna og það eru allir í þessum verkefnum,“ segir hann.

Vatn flæðir hér yfir stíg í Norðlingaholtinu, þar sem Elliðavatn …
Vatn flæðir hér yfir stíg í Norðlingaholtinu, þar sem Elliðavatn hefur líka flætt yfir bakka sína. mbl.is/RAX

Ekki meira rennsli í Soginu frá því á síðustu öld

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni þá eru kyrrstæð skil sem verið hafa yfir landinu síðustu tvo sólarhringa og fært hafa hingað stöðuga rigningu langt sunnan úr hafi, nú á leið vestur út af landinu. Því mun draga úr úrkomu smám saman sunnan- og vestanlands og stytta upp að mestu í kvöld og nótt.

Ár á Vesturlandi náðu hámarki snemma í morgun. Mjög mikið vatn er þá í ám við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul eins og t.d. í  Krossá, Jökulsá á Sólheimasandi, Múlakvísl og Djúpá. Enn er mikil rigning á svæðinu og styttir ekki upp fyrr en í kvöld.

Rennsli er loks enn að vaxa í Hvítá og Ölfusá og þá er mikið vatn í öllum þverám Hvítár og mjög mikið í Soginu, en rennsli þar fór í 250 m³/s og hefur ekki verið jafn mikið síðan 1999. Rennsli hefur ekki náð hámarki í Hvítá við Fremstaver svo líklega nær Ölfusá við Selfoss ekki hámarki fyrr en á föstudagskvöld eða laugardagsmorgun. Líklegt er að hámarksrennsli Ölfusár við Selfoss geti farið yfir 1.000 m³/s en það gerðist síðast í febrúar 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert