Stormviðvörun á morgun

Jæja, rok og rigning samkvæmt spánni á morgun.
Jæja, rok og rigning samkvæmt spánni á morgun. mbl.is/Golli

Veðurstofan varar við suðaustan hvassviðri eða stormi á morgun með talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands.

Vestlægar áttir eru ríkjandi á landinu í dag og víða dálitlar skúrir, en léttir til suðaustan- og austanlands. Snýst í vaxandi suðaustanátt í nótt og fer að rigna sunnan- og vestanlands.

Hvassviðri eða stormur vestantil á landinu um hádegi á morgun, en hægari vindur fyrir austan. Rigning eða talsverð rigning, einkum sunnanlands, en áfram þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Dregur síðan smám saman úr vindi á fimmtudag með skúrum. Áfram verður fremur milt í veðri, segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veður á mbl.is

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring:

Suðvestan og vestan 5-13 m/s með morgninum og dálitlar skúrir, en léttir til suðaustan- og austanlands. Suðlægari þegar líður á kvöldið. Vaxandi suðaustanátt í nótt og í fyrramálið og fer að rigna sunnan og vestan til á landinu, 15-23 m/s undir hádegi og rigning eða talsverð rigning, hvassast vestan til. Hægari vindur og þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Hiti 5 til 11 stig.

Gengur í sunnan 15-23 m/s með talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands, en hægari vindur og úrkomulítið um landið norðaustanvert. Heldur hvassara vestan til á landinu þegar líður á kvöldið. Hlýnandi veður, hiti 8 til 14 stig síðdegis, hlýjast NA-til á landinu.

Á fimmtudag:
Minnkandi suðvestanátt og skúrir, en þurrt að kalla norðaustan til. Sunnan 5-13 og um kvöldið. Kólnar lítið eitt.

Á föstudag:
Suðaustan 8-13 og skúrir, en hægari og úrkomulítið norðaustan til. Bætir í vind og úrkomu um kvöldið. Hiti 7 til 12 stig.

Á laugardag:
Suðaustanátt og skúrir, en skýjað með köflum og þurrt norðanlands. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag og mánudag:
Fremur hæg breytileg átt og þurrt og bjart víðast hvar. Áfram fremur milt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert