Pattstaða í máli litla drengsins

Börn að leik á Íslandi. Litli drengurinn er nú á …
Börn að leik á Íslandi. Litli drengurinn er nú á Íslandi en Hæstiréttur hefur fallist á kröfur norskra yfirvalda að senda hann til Noregs þar sem koma á honum fyrir í fóstri til átján ára aldurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn hefur ekkert samkomulag náðst milli íslenskra og norskra barnaverndaryfirvalda um hvar fimm ára íslenskum dreng, sem norsku yfirvöldin hafa forsjá yfir, verður komið í fóstur. Forstjóri Barnaverndarstofu sagði í síðustu viku að barnaverndaryfirvöld í löndunum tveimur hefðu átt í samskiptum og að ekki væri útséð með að drengnum yrði komið í fóstur hér á landi. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar Íslands ber móðurinni að afhenta drenginn fyrir 4. desember.

Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá Barnaverndarstofu í dag er ekkert nýtt að frétta af samningaviðræðunum. Staðan er sögð viðkvæm en að allt kapp sé lagt á að fá farsæla lausn í málið. „Ekkert hefur þó komið fram sem bendir beinlínis til tregðu af hálfu Norðmanna heldur hitt að lagatæknileg atriði vefjast fyrir mönnum,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri stofnunarinnar.

Hæstiréttur féllst á kröfu Norðmanna

Forsaga málsins er sú að fyrr á þessu ári svipti fylkisnefnd í Noregi móður drengsins forræði yfir honum. Í kjölfarið fór móðuramma hans með hann til Íslands og hefur hann dvalið á sameiginlegu heimili hennar og móður drengsins hér á landi síðan.

Í síðustu viku féll dómur í Hæstarétti Íslands sem snérist um brottnám drengsins frá Noregi. Niðurstaðan var sú að senda bæri drenginn til barnaverndaryfirvalda í Noregi sem hefðu falið sveitarfélaginu sem móðirin bjó í forræði yfir honum samkvæmt norskum lögum. Var niðurstaða Hæstaréttar m.a. grundvelli Haag-samningsins. Samkvæmt fyrstu grein samningsins er markmið hans að tryggja að börnum, sem flutt eru með ólögmætum hætti til samningsríkis eða haldið þar á ólögmætan hátt, sé skilað sem fyrst og að sjá til þess að forsjárréttur samkvæmt lögum eins samningsríkis sé í raun virtur í öðrum samningsríkjum.

Óregla og ofbeldi

Móðirin flutti ásamt syni sínum, foreldrum og systrum til Noregs árið 2013. Í desember það ár hófust afskipti barnaverndaryfirvalda af fjölskyldunni. Samkvæmt upplýsingum norskra yfirvalda, sem reifaðar eru í dómnum, var móðirin lögð inn á meðferðarstofnun í ágúst á síðasta ári og aftur í desember það ár. Í  aðdraganda þess hafi hún sprautað sig daglega með amfetamíni auk þess að neyta annarra vímuefna. Móðirin viðurkenndi síðar fyrir fylkisnefndinni að hún væri ófær um að annast son sinn eins og sakir stæðu og voru barnaverndaryfirvöld á sama máli.

Í dómnum kemur einnig fram að aðstæður á heimili móðurömmu og móðurafa drengsins hafi verið slæmar. Þar hafi verið óregla og að afinn hefði sætt lögreglurannsókn vegna heimilisofbeldis. Móðir drengsins sagði einnig við fylkisnefndina að faðir hennar væri ofbeldishneigður og að hún óskaði þess að sonur sinn fengi ekki samskonar uppeldi og hún sjálf.

Fylkisnefndin taldi að heimili ömmu og afa drengsins í Noregi væri ekki nægilega stöðugur og öruggur uppeldisstaður fyrir hann. Var niðurstaða nefndarinnar því sú að fela sveitarfélaginu sem mæðginin bjuggu í að taka yfir umönnun drengsins og að hann yrði vistaður á viðurkenndu fósturheimili.

Faðirinn vill forræði

Móðir drengins hefur kært forsjárúrskurð fylkisnefndarinnar fyrir dómstóla í Noregi og er málið því enn til meðferðar þar.

Í frétt DV í dag kom svo fram að faðir drengsins, sem er íslenskur en búsettur í Danmörku, færi nú fram á að fá forræði yfir syni sínum. Samkvæmt fréttinni mun hann á næstu dögum eiga fund með fulltrúum ráðuneyta hér á landi.

Á meðan foreldrar drengsins standa í slíkum málarekstri er talið ólíklegt að Norðmenn fari á fullt í samningaviðræður við íslensk barnaverndaryfirvöld um hvar drengnum verði komið í fóstur. Því er nokkurs konar pattstaða komin upp á meðan foreldarnir fá niðurstöðu í kröfur sínar.

Það eitt og sér breytir hins vegar engu um það að móðurinni ber samkvæmt úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, að afhenta drenginn eigi síðar en 4. desember. 

Það er eftir átján daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert