Píratar munu funda í dag en ekki með öðrum flokkum að sögn Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanns Pírata. Á þeim fundi verður lagður grunnur að fundi við aðra flokka sem verða annaðhvort annað kvöld eða á mánudagsmorgun.
Í gær veitti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, henni og Pírötum umboð til stjórnarmyndunar. Píratar eru þriðji flokkurinn sem fær stjórnarmyndunarumboðið eftir kosningar í október.
Frétt mbl.is: „Mun byggja á góðum grunni“
Nú er fyrirséð að fulltrúar Pírata, Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar taki upp þráðinn að nýju og reyni að mynda fimm flokka ríkisstjórn. Sagðist Birgitta í gær vera vongóð um að flokkunum „takist að finna leið til að vinna saman“ og „mikilvægt væri að fólk gæfi sér tíma til að hittast, án mikils þrýstings, til að ræða saman.“
Niðurstaða úr viðræðum fimm flokka kæmi á óvart, að sögn Birgis Guðmundssonar stjórnmálafræðings. Þetta sagði hann við mbl.is í gær. Ef af slíkri stjórn yrði telur hann líklegt að hún myndi líklega ekki starfa saman út heilt kjörtímabil.
Frétt mbl.is: „Kemur ekki á óvart“
Flokkur Pírata er þriðji stærsti stjórnmálaflokkur á þingi, með 14,5% í kosningunum og 10 þingmenn. Áður hafði forsetinn veitt Sjálfstæðisflokki, sem er stærsti flokkurinn á þingi, umboðið og Vinstri grænum. Hvorugum gekk að mynda ríkisstjórn.
Þetta er í fyrsta sinn í heiminum sem flokkur Pírata fær umboð til stjórnarmyndunar. Það hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla. Meðal annars greina Independent, Telegraph og BBC frá því.
Í frétt Telegraph er meðal annars spjallað við Halldóru Mogensen flokksmann Pírata sem á sæti á þingi.
Í frétt BBC kemur einnig fram að helstu áherslumál Pírata séu meðal annars meira gagnsæi í pólitískum stjórnarháttum, gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi og að uppræta skattaskjól. Í henni er einnig greint frá því að andstæðingar Pírata telji þá skorta pólitíska reynslu og það gæti ógnað stöðugleika í íslenskum efnahag sem og styggt mögulega fjárfesta.